Finninn Valtteri Bottas verður á ráspól í Formúlu 1 kappakstrinum í Mexíkó sem fer fram í kvöld. Liðsfélagi hans hjá Mercedes Lewis Hamilton byrjar annar en þeir Max Verstappen og Sergio Pérez hjá Red Bull koma þar á eftir.
Niðurröðun ökumanna eftir tímatökuna hefur breyst talsvert en hvorki meira né minna en fimm ökumenn hafa verið færðir aftast í röðina eftir að hafa gert breytingar á bílum á sínum.
George Russell hjá Williams mun byrja 16. eftir að skipt var um gírkassa í bílnum hans. Þeir Yuki Tsunoda hjá AlphaTauri, Lando Norris hjá McLaren, Esteban Ocon hjá Alpine og Lance Stroll hjá Aston Martin koma svo þar á eftir en ný vél var sett í bíla þeirra allra.
Þetta þýðir að þeir Sebastian Vettel og Kimi Raikkonen munu báðir byrja meðal 10 fremstu ökumanna þrátt fyrir að hafa upphaflega endað neðar. Fernando Alonso færist einnig framar í röðinni en hann mun byrja kappaksturinn í 12. sæti.