Valgerður Guðsteinsdóttir, fyrsta og eina atvinnuhnefaleikakona Íslands, hefur ekki barist síðan í mars árið 2019 en mun loks fá bardaga í lok nóvembermánaðar á þessu ári.
Hún hefur unnið fjóra bardaga og tapað tveimur af þeim sex sem hún hefur tekið þátt í sem atvinnuhnefaleikakona og er að vonum spennt að snúa loks aftur í hringinn eftir að ýmislegt hefur gengið á undanfarin ár við tilraunir til þess að fá næsta bardaga.
„Ég er bara ótrúlega spennt, þetta er löngu tímabært. Það var í maí á þessu ári sem ég var nýbúin að meiða mig. Ég var búin að segja já við bardaga í Las Vegas og fékk skell í andlitið. Það var eiginlega eins fáránlegt og það gat verið.
Við kunnum alveg að umgangast hvert annað í þessu án slysa. Svo bara á einhvern undarlegan hátt er ég fyrir og vinur minn dúndrar frisbígolfdiski af stuttu færi í andlitið á mér. Ég var bara ótrúlega heppin að fá þetta ekki í augað, tennurnar eða nefið.
Síðan hafa alveg komið upp bardagar en andstæðingurinn hættir við eða meiðist. Svo þegar ég átti að vera að keppa á Möltu í vor á þessu ári þá lokaði nú bara eyjan. Þegar sá bardagi átti að fara fram síðar þá hætti andstæðingurinn við þar sem hann vildi fyrst taka auðveldari bardaga, þau sögðu mér það bara hreint út,“ sagði Valgerður í samtali við mbl.is.
Eftir að hún hafði betur gegn hinni úkraínsku Sabinu Mischenko snemma árs 2019 fékk Valgerður annan bardaga sama ár.
„Undir lok ársins 2019 átti ég að keppa mjög stóran bardaga í Þýskalandi á móti grískri stelpu. Svo bara daginn fyrir blaðamannafundinn sem við ætluðum að halda þá hætta þau við. Það voru alveg hlutir að gerast og ég var í æfingabúðum en svona er þetta búið að vera fyrir og í Covid,“ útskýrði hún.
Kórónuveirufaraldurinn gerði Valgerði enn erfiðara um vik að fá bardaga. „Já, af því að þá eru náttúrlega allir að hugsa um sína og ég er hérna ein á eyju þar sem þetta er hvort eð er bannað, þannig að það er enginn að reyna að koma mér eitthvað áfram.
Það eru að sjálfsögðu allir að hugsa um sína boxara og reyna að koma þeim á framfæri, að halda sínum boxurum gangandi og fá bardaga sem krefjast sem minnstra ferðalaga.“
Valgerður telur að næsti bardagi hennar geti komið til með að auðvelda henni að fá bardaga í framtíðinni. „Ég er með söfnun í gangi þar sem ég er í rauninni minn eigin kynningaraðili núna. Ég er að borga fyrir þetta allt sjálf. Núna á ég þetta pláss á þessu korti, þetta er flott kort og ég myndi ekki vilja missa bardaga úr því.
Þó að það myndi eitthvað gerast hjá andstæðingnum sem er ég með núna þá munu skipuleggjendurnir gera allt til þess að halda bardaganum inni og fá annan andstæðing í staðinn.
Þess vegna er ég að gera þetta svona núna, til þess að ég tryggi mér bardaga á þessu ári og þá kemst ég bókstaflega aftur á kortið. Þá fara augun aftur á mig og þá er einmitt auðveldara fyrir mig að fá bardaga með eðlilegum fyrirvara og jafnvel kynningu ef ég stend mig vel,“ sagði Valgerður.
Það verða liðin tæp þrjú ár frá því að hún barðist síðast þegar Valgerður mætir Claire Sammut frá Möltu á „Night of the Champions“ boxkvöldi í Jönköping í Svíþjóð þann 27. nóvember næstkomandi.
Sammut, sem er 38 ára gömul, er lægri en Valgerður og er svokollaður pressuboxari en hún hefur unnið fjóra af ellefu atvinnumannabardögum sínum og tapað sjö þeirra.
„Ég er náttúrlega þvílíkt spennt og er búin að safna upp eldmóði og öllu fyrir þennan bardaga. Ég ætla bara að taka þetta, það er alveg klárt mál. En ég held að Sammut verði mjög skemmtilega krefjandi.
Hún er með fínan áhugamannaárangur og það er stutt síðan hún barðist síðast þannig að hún er alveg fersk. Mér finnst þetta mjög spennandi,“ sagði Valgerður að lokum við mbl.is um bardagann í lok mánaðarins.