Þremur leikjum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag var að ljúka. Arsenal sigraði Watford 1:0 á Emirates-vellinum í Lundúnum og er nú taplaust í 10 leikjum í röð í öllum keppnum.
Bukayo Saka hélt að hann hefði komið sínum mönnum í Arsenal yfir snemma leiks en VAR dæmdi markið af vegna rangstöðu. Arsenal fengu svo vítaspyrnu eftir rúmlega hálftíma leik þegar Danny Rose braut á Alexandre Lacazette en Pierre-Emerick Aubameyang brenndi af. Það var svo Emile Smith-Rowe sem skoraði eina mark leiksins á 56. mínútu. Smith-Rowe hefur nú skorað í þremur deildarleikjum í röð fyrir Arsenal. Á 89. mínútu fékk svo Juraj Kucka sitt annað gual spjald og þar með rautt eftir tæklingu á Nuno Tavares. Með sigrinum fóru Arsenal menn í 5. sæti deildarinnar en Watford eru í því 17.
Í Leeds gerðu heimamenn svo 1:1 jafntefli gegn Leicester. Raphinha skoraði fyrra mark leiksins fyrir Leeds beint úr aukaspyrnu eftir 26 mínútna leik. Gestirnir tóku miðju, brunuðu upp völlinn og jöfnuðu metin í næstu sókn. Þar var að verki Harvey Barnes en markið var einkar glæsilegt.
Þriðji leikurinn var svo viðureign Everton og Tottenham en þetta var fyrsti deildarleikur Antonio Conte sem þjálfari Tottenham. Skemmst er frá því að segja að leiknum lauk með markalausu jafntefli þar sem Mason Holgate fékk að líta beint rautt spjald fyrir ljóta tæklingu á Ben Davies. Darren England dómari leiksins gaf Holgate upphaflega gult spjald en eftir að hafa skoðað atvikið aftur í VAR-skjánum breytti hann því í rautt.