Allt stefnir í spennandi Laugavegshlaup næsta sumar en skráningu lýkur á föstudaginn kemur og allir sem skipuðu verðlaunasætin í hlaupinu sumarið 2021 hafa þegar skráð sig til leiks.
Hlaupið sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár verður nú haldið í 26. skipti þann 16. júlí sumarið 2022. Það heitir Laugavegur Ultra Maraþon og er eitt elsta utanvegahlaup sem haldið er reglulega á Íslandi.
Bretinn Andrew Douglas sigraði í fyrra þegar hann hljóp 55 kílómetrana á milli Landmannalauga og Þórsmerkur á 4 tímum, 10,32 mínútum. Hann varð 22 mínútum á undan Þorbergi Inga Jónssyni, sem hinsvegar er methafinn í þessu hlaupi og hefur hlaupið Laugaveginn á 3 tímum, 59,13 mínútum. Þeir gætu háð mjög harða keppni í þetta skipti.
Andrea Kolbeinsdóttir sigraði í kvennaflokki í fyrra þegar hún keppti í fyrsta skipti og mætir aftur næsta sumar en þær Rannveig Oddsdóttir og Íris Anna Skúladóttir sem veittu henni keppni og enduðu í öðru og þriðja sæti hafa einnig þegar skráð sig til leiks.
Hlaupið hefur verið vinsælt síðustu ár og alltaf verið uppselt, en takmarkaður fjöldi er í hlaupið og því hafa síðustu ár verið mikil læti að ná skráningum. 2019 seldist upp á þremur dögum, 2020 á þremur klukkustundum og fyrir hlaupið í ár, 2021 seldist upp á innan við 30 mínútum.
Nú er hins vegar notað nýtt skráningarfyrirkomulag. Opnað var fyrir skráningar 5. nóvember og er opið til hádegis á föstudaginn kemur, 12. nóvember. Bestu hlaupararnir sem hafa náð ákveðnum ITRA-stigum komast sjálfkrafa inn, en 80 sæti eru frátekin fyrir stigahæstu karla- og kvenhlauparana. Aðrir hlauparar þurfa ekki að hafa ITRA stig til að komast í pottinn og því geta allir skráð sig. 19. nóvember verður tilkynnt hverjir fengu sæti í hlaupinu.
„Við erum ánægð með nýtt skráningarfyrirkomulag, að hlauparar geti skráð sig í rólegheitum í vikunni, í stað stressins sem hefur einkennt skráningarferlið síðustu ár. Skráningin gengur vel og við vonum að allir sem hafa áhuga á hlaupinu séu búin að skrá sig, hlauparar á öllum aldri eru skráðir, frá 18 til 80 ára. Skráning erlendra keppenda hefur einnig aukist, fleiri eru skráðir núna en komu í síðasta hlaup, en lengi vel voru erlendir keppendur í meiri hluta skráðra þátttakenda,” sagði Silja Úlfarsdóttir upplýsingafulltrúi Íþróttabandalags Reykjavíkur en ÍBR stendur jafnan fyrir hlaupinu.