Fyrir fram ætti Breiðablik að eiga fyrir höndum jafnan og tvísýnan leik í dag þegar Kópavogsliðið mætir OSC Metalist Kharkiv í úkraínsku borginni Kharkiv í Meistaradeild kvenna í fótbolta.
Liðin tvö fóru mjög svipað af stað í riðlakeppninni í haust. OSC Metalist tapaði 0:1 heima gegn Real Madrid og 0:5 fyrir París SG í Frakklandi á meðan Blikar töpuðu 0:2 heima fyrir París SG og 0:5 fyrir Real Madrid á Spáni.
Þetta er því að öllu óbreyttu fyrra uppgjör liðanna um hvort þeirra nær þriðja sætinu í riðlinum en þau mætast aftur á Kópavogsvelli í næstu viku.
Heima í Úkraínu ber mótherji Breiðabliks nafnið Zhytlobud-1 Kharkiv, en það er nafn byggingafyrirtækis sem stendur á bak við það og UEFA viðurkennir ekki slík heiti á félögum. Sama fyrirtæki rekur líka lið Zhytlobud-2 Kharkiv, en þetta eru einmitt erkifjendur og langbestu lið Úkraínu sem hafa unnið meistaratitilinn til skiptis undanfarin ellefu ár. Þau eru að vanda langefst í deildinni í Úkraínu þegar deildin þar er að verða hálfnuð.
Í liði OSC Metalist Kharkiv, eins og mótherjar Blika heita hjá UEFA, eru átta núverandi landsliðskonur Úkraínu ásamt landsliðsmarkverði Tyrklands og landsliðsframherja frá Bosníu.
Þekktust þeirra eru Daria Apanashchenko, 35 ára framherji eða miðjumaður, sem hefur verið í lykilhlutverki í landsliði Úkraínu um árabil. Hún var Stjörnunni erfið í 32ja liða úrslitum Meistaradeildarinnar haustið 2014 og skoraði þá í báðum leikjum Zvezda frá Rússlandi gegn Garðabæjarliðinu.
OSC Metalist sló út Pomurje frá Slóveníu og NSA Sofia frá Búlgaríu með 4:1 og 5:1 sigrum í 1. umferð keppninnar í ágúst. Í 2. umferð vann úkraínska liðið síðan Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur, fyrrverandi leikmann Breiðabliks, og stöllur hennar í kýpverska meistaraliðinu Apollon Limassol, 3:1 og 2:1, og komust með því í riðlakeppnina.
Úkraínska liðið er í 16 liða úrslitum í fyrsta skipti en liðið komst áður í 32ja liða úrslit 2009 og 2018. Liðið hefur ekki átt góðu gengi að fagna gegn mótherjum frá vesturhluta Evrópu og tapaði m.a. 0:4 fyrir Glasgow City frá Skotlandi fyrir nokkrum árum og þar á undan 1:10 samanlagt í tveimur leikjum gegn Linköping frá Svíþjóð.