Ingibjörg Erla Grétarsdóttir úr Fimleikafélaginu Björk og Þorsteinn Ragnar Guðnason úr Taekwondo félagi Kópavogs fögnuðu sigri á Íslandsmeistaramótinu í Taekwondo sem fram fór í íþróttahúsinu að Varmá um síðustu helgi.
Þá varð Taekwondo félag Kópavogs stigameistari félaga á sínu fyrsta Íslandsmóti en félagið er það yngsta á landinu í dag.
„Tilfinningin er bara mjög góð,“ sagði Ingibjörg Erla eftir sigur í kvennaflokki.
„Ég hef því miður ekki fengið mörg tækifæri á bardögum hér heima síðustu árin en hef þess í stað einbeitt mér meira að keppni á alþjóðlegum vettvangi,“ bætti Ingibjörg við en hún er meðal annars á leið á Paris Open og Austrian Open á næstu vikum.
„Það er frábært að verða Íslandsmeistari og markmiðið fyrir mótið var að sjálfsögðu að vinna það,“ sagði Þorsteinn, nýkrýndur Íslandsmeistari í taekwondo í karlaflokki.