Dadó og Jóhanna fjórfaldir Íslandsmeistarar

Dadó Fenrir Jasminuson margfaldur Íslandsmeistari.
Dadó Fenrir Jasminuson margfaldur Íslandsmeistari. mbl.is/Unnur Karen

Dadó Fenrir Jasmínuson og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir stálu senunni á öðrum degi Íslandsmeistaramótsins í sundi í 25 metra laug á Ásvöllum í dag. Dadó og Jóhanna unnu bæði eitt gull í gær og bættu við þremur í dag.

Sveit SH vann 4x50 metra skriðsund en sveitina skipuðu Dadó Fenrir Jasminuson, Símon Elías Statkevicious, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Steingerður Hauksdóttir. Syntu þau á 1:36,95 mínútum.

Dadó bætti sínum þriðju gullverðlaunum í safnið er hann vann 100 metra skriðsundið á 49,85 sekúndum og Jóhanna sínum þriðju er hún vann 50 metra flugsund á 27,38 sekúndum. Þau voru svo bæði í sigursveitum SH í 4x100 metra skriðsundi og bættu þar með við fjórðu gullverðlaununum sínum. 

Kolbeinn Hrafnkelsson kom fyrstur í mark í 50 metra baksundi en hann synti á 25,34 sekúndum. Kolbeinn syndir fyrir SH. Alexander Logi Jónsson úr ÍRB vann 200 metra flugsund á 2:08,04 mínútum.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir er sigursæl.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir er sigursæl. mbl.is/Unnur Karen

Hin 17 ára gamla Kristín Helga Hákonardóttir er Íslandsmeistari í 200 metra skriðsundi kvenna, en hún synti á 2:03,69 mínútum.

Steingerður Hauksdóttir vann 100 metra baksund er hún synti á 1:02,91 mínútu en hún syndir fyrir SH.

Öll úrslit mótsins má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert