„Þetta er eilíft stríð og ég þarf að reglulega að fara í sjálfskoðun á mína andlegu líðan,“ sagði Sævar Baldur Lúðvíksson, nýkrýndur Norðurlandameistari í skylmingum með höggsverði, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Sævar, sem er 31 árs gamall, byrjaði að æfa skylmingar þegar hann var tíu ára gamall en hann var 167 kílógrömm fyrir einu og hálfu ári.
Hann var langt leiddur af kvíða og þunglyndi þegar hann skráði sig í meðferð hjá Heilsustofnun í Hveragerði og mánuði síðar skráði hann sig á námskeið hjá miðstöð fyrir matarfíkla.
„Ég þjáðist af þunglyndi, kvíða og var með mjög brotna sjálfsmynd og þetta eru allt tilfinningar sem koma ennþá upp dagsdaglega hjá mér,“ sagði Sævar.
„Ég vann bardagann um að grenna mig en stríðið heldur áfram. Það er alltaf smá hræðsla til staðar um að detta í gamla farið enda hefur mér oft tekist að grenna mig en aldrei tekist að viðhalda því.
Það breyttist allt þegar ég fór að vinna í andlega þættinum og núna tek ég einn dag fyrir í einu. Ég þjáðist af matarfíkn og fíknin hverfur ekkert,“ sagði Sævar meðal annars.
Viðtalið við Sævar í heild sinni má nálgast með því að smella hér.