Íslenska 18 ára landslið kvenna í íshokkí vann sinn fyrsta og eina sigur í fjögurra þjóða móti í Skautahöll Reykjavíkur í kvöld er liðið vann Bretland í vítakeppni.
Lydia Walsh kom Bretum yfir í fyrstu lotu og reyndist það eina markið þar til Hilma Bergsdóttir jafnaði 13 mínútum fyrir leikslok, 1:1.
Fleiri mörk voru ekki skoruð og því réðust úrslitin í vítakeppni. Þar skoruðu Kolbrún Garðarsdóttir og April Orongan mörk Íslands á meðan Bretum tókst ekki að skora.
Ísland tapaði fyrir Póllandi, 2:3, í fyrsta leik og fékk 0:8-skell gegn Spánverjum í gær. Spánverjar unnu alla sína leiki á mótinu og fengu 9 stig. Bretar voru með 4 stig í öðru sæti, Pólverjar 3 stig og Íslendingar tvö stig.