„Svo ég byrji nú bara á byrjuninni var þetta rosalega flott mót og gaman að koma hingað út, allt til fyrirmyndar, nema kannski þegar kemur að minni fyrstu lyftu,“ segir Júlían J. K. Jóhannsson kraftlyftingamaður sem í dag fór með sigur af hólmi í réttstöðulyftu í +120 kg flokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum í Stavanger í Noregi. Lyfjaeftirlitsmenn drifu hann í lyfjapróf ásamt nokkrum öðrum keppendum að lokinni verðlaunaafhendingu, áður en auðnaðist að króa hann af í viðtal. „Bíddu, ég ætla aðeins að pissa fyrir þá,“ sagði Júlían af sínum kunna léttleika áður en hann fór yfir daginn í spjalli við mbl.is.
Kveður Júlían umrædda fyrstu lyftu, þegar hann reyndi við 397,5 kg í hnébeygju, hafa lagt það grunnstef að dagurinn í dag væri ekki hans dagur, þrátt fyrir glæsilegan árangur í réttstöðulyftu þar sem hann lyfti 380 kg. „Ég missi jafnvægið í hnébeygjunni og dett fram og það er svolítið að elta mig allar lyfturnar,“ segir hann og bætir því við að 397,5 í hnébeygju ætti að öllu jöfnu að vera honum létt opnunarþyngd.
Í annarri atlögu að sömu þyngd fer Júlían upp með hrikalegt hlassið á herðunum en fer að mati dómenda ekki nægilega djúpt niður í beygjuna, í hnébeygju þarf keppandinn að beygja sig svo djúpt að efsti mjaðmaliðurinn fari niður fyrir hné. Var lyftan því ógild og í þriðju tilraun, 405 kg, missir Júlían jafnvægið þegar einn stangarmannanna, aðstoðarmanna sem umkringja keppendur í lyftum og grípa inn í gangi ekki sem skyldi, tekur of snemma í stöngina. „Ég fæ þá aukatilraun og þá er ég bara orðinn of þreyttur og missi ballans,“ segir kraftlyftingamaðurinn frá, sem gerði mjög góða för á Evrópumeistaramót í Tékklandi í ágúst, eins og mbl.is greindi frá, en í dag var gamla dagsformið ekki á sínum stað.
„Auðvitað hefði ég alltaf átt að taka þessa þyngd, hausinn á mér var alltaf þar, en svo bara fer ég þarna fram á pallinn og þá er bara eins og það sé ekki alveg kveikt á mér,“ segir Júlían og bætir því við að þegar komið var yfir í bekkpressuna hafi landið lítið farið að rísa, þvert á móti eiginlega. „Ég fer í 312,5 kg og lyfti því tvisvar en fæ það ógilt í bæði skiptin, seinni lyftuna missti ég fram fyrir mig þegar ég var að klára hana og í þeirri fyrri lyfti ég rassinum af bekknum,“ segir hann, en sá líkamshluti verður að vera í snertingu við bekkinn meðan á lyftu stendur.
Þegar þarna er komið sögu ákveður Júlían að setja þá orku sem hann á eftir í réttstöðulyftuna, sína bestu grein, og mætir ekki á svið í lokatilraun í bekkpressu, en engin gild lyfta þar táknar að hann fellur í raun úr keppni, getur sem sagt ekki lent í sæti fyrir heildarframmistöðuna, aðeins í einstökum greinum og hlaut hann þannig gullpeninginn í réttstöðu. „Ég opnaði í 355 kílóum sem var bara létt og fór svo í 380 kíló sem var nóg til að vinna þá grein. Svo reyndi ég við 400 kíló, bara upp á gamanið,“ segir Júlían sem á 409 kg sem sinn besta árangur í „deddinu“ svokallaða og lyfti 390 kg í Tékklandi í ágúst.
Áhorfendum í stúku, kirfilega merktum Noregi og Svíþjóð með fánum og fatnaði, rann greinilega blóðið til skyldunnar að hvetja frændþjóðina fornu og létu vel í sér heyra með öskrum og klappi þegar Júlían setti sig í stellingarnar með 400 kílógrömm á gólfinu fyrir framan sig. Sú þyngd fór ekki í mark í dag.
„Miðað við þennan dag og allt er ég bara mjög sáttur við þetta, ég finn það bara að ég kem þreyttur inn í þetta mót og var kannski dálítið þannig líka á Evrópumótinu í ágúst. Ég er búinn að keyra á þreytunni núna, stutt milli móta og ég svona brotlendi aðeins inn í þetta, en næ að bjarga því aðeins í réttstöðunni.“
Júlían segist hafa búist við betra gengi í dag, hann viti að hann á meira inni í öllum greinum. Blaðamaður rifjar upp viðtal við Júlían eftir EM í ágúst þar sem hann kvaðst stefna ótrauður á Heimsleikana 2022, en mótið í dag var úrtökumót fyrir þá. Er sá draumur þar með úti?
„Hann er kannski ekki alveg úti, en hann er ekki inni, við skulum orða það þannig, það verður bara að koma í ljós á næstu mánuðum hvernig það fer. Það eru einhver „wildcards“ svokölluð, eitt eða tvö, bara spurning hvort þau falli með mér eða ekki,“ segir hann og vísar til boðs um þátttöku sem aðstandendur Heimsleikanna geta gert vænlegum keppendum án tillits til árangurs á úrtökumótum. Þetta verði ljóst í janúar.
Eftir HM tekur við grunnvinna hjá Júlían. „Ég þarf að vinda ofan af þreytu og það hefur margt breyst í mínu lífi. Ég byrjaði árið 2019 rosalega vel, í besta formi lífs míns. Svo koma lokanir og maður er að berjast fyrir að fá að æfa og það eru engin mót auk þess sem ég verð pabbi á sama tíma svo það kollvarpast allt hjá mér. Ég held ég taki bara næsta misserið í að endurskipuleggja mig æfingalega séð,“ segir hann.
Hvernig skyldi uppeldið þá ganga? „Mjög vel, alveg dásamlega,“ svarar Júlían undir lokin, brosmildur eftir ágætt mót í Stavanger, en blaðamaður átti einmitt líflegt spjall við konu hans, Ellen Ýri, um búferlaflutninga, óléttu og stálið, á meðan beðið var eftir drengnum úr lyfjaprófinu.