„Ég áttaði mig á því að ég þurfti að vinna í andlegu hliðinni og það var ekki nóg að missa bara kílóin,“ sagði Sævar Baldur Lúðvíksson, nýkrýndur Norðurlandameistari í skylmingum með höggsverði, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Sævar, sem er 31 árs gamall, var 167 kílógrömm fyrir einu og hálfu ári en hann hefur æft skylmingar síðan hann var tíu ára.
Í ársbyrjun 2020 skráði hann sig í meðferð hjá Heilsustofnun í Hveragerði og mánuði síðar skráði hann sig á námskeið hjá miðstöð fyrir matarfíkla.
„Ég hataði allt við sjálfan mig og ég þurfti að læra elska sjálfan mig, þrátt fyrir að vera ósáttur við þá stöðu sem ég var kominn í,“ sagði Sævar.
Þegar Sævar var sem þyngstur íhugaði hann að svipta sig lífi.
„Ég vildi lifa. Ég vildi ekki gera fjölskyldunni minni það og innst inni vildi ég ekki gera sjálfum mér það,“ sagði Sævar.
Viðtalið við Sævar í heild sinni má nálgast með því að smella hér.
Ef einstaklingar upplifa sjálfsvígshugsanir er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.