„Fékk ástríðuna fyrir lyftingum aftur“

Sóley Margrét Jónsdóttir lét engan bilbug á sér finna á …
Sóley Margrét Jónsdóttir lét engan bilbug á sér finna á HM í gær, gekk hreint til verks í öllum lyftum og vakti þessi íslenska valkyrja ósvikna hrifningu á áhorfendapöllunum í Stavanger. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Í hnébeygjunni opnaði ég í 200 og stökk svo yfir í 240,“ segir Sóley Margrét Jónsdóttir, tvítug kraftlyftingakona úr Breiðabliki, sem í gær keppti í fjórða sinn á heimsmeistaramóti í greininni, að þessu sinni í Stavanger í Noregi, og gerði býsna góða för með fumlausum og sannfærandi lyftum sem skiluðu henni 5. sæti á mótinu, en Sóley, sem fædd er árið 2001, vakti verðskuldaða athygli í apríl 2019 þegar hún varð Evrópumeistari í +84 kg flokki stúlkna á EM í Tékklandi og setti auk þess heimsmet stúlkna í hnébeygju með 265,5 kg lyftu.

Í þriðju atrennu í beygjunni reyndi Sóley við 260 kg og lyfti þeim, en fékk á sig ógildingu tveggja dómara á móti einum þar sem meirihlutinn taldi hana ekki beygja sig nógu djúpt. Í bekkpressu fór Sóley vel af stað með tveimur lyftum sem hún virtist ekkert hafa fyrir, 165 og 180 kg, og fögnuðu áhorfendur af mörgum þjóðernum á pöllunum, ekki síst fámennur, en ákaflega góðmennur, íslenskur hópur sem studdi vel við landa sína þrjá í gær, þau Sóleyju, Júlían J. K. Jóhannsson og Guðfinn Snæ Magnússon.

Úr handboltanum í stálið

„Planið var að reyna við heimsmetið, sem var 192,5, en stelpan á undan mér reyndi þá við 195 og tók það á undan mér, í annarri umferðinni,“ segir Sóley sem engu að síður lét vaða í 192,5, byrjaði lyftuna mjög vel og undir lokin vantaði bara millimetrana þar sem hún læsti ekki hægri handlegg við lok lyftunnar. Tvö rauð ljós á veggnum og eitt hvítt, það er tveir dómarar af þremur dæmdu lyftuna ógilda, en ljóst að Sóley var með verulega bætingu rétt utan seilingar, því hún á 180 í bekk, fyrrverandi handboltakona til margra ára sem datt inn á lyftingaæfingu „og þá var ekki aftur snúið“ eins og hún lýsir því sjálf.

Tilkynningaskjár um næsta keppanda, grein, þjóðerni og þyngd lyftu. Þarna …
Tilkynningaskjár um næsta keppanda, grein, þjóðerni og þyngd lyftu. Þarna er Sóley á leið í fyrstu atrennu í hnébeygju, 200 kg, sem flugu upp. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

 „Í deddinu [réttstöðulyftu (e. deadlift)] opnaði ég í 190, stökk í 210 og klikkaði á því, en fór svo aftur í sömu þyngd og tók hana þá í þriðju umferðinni,“ segir Sóley af hólmgöngunni í Stavanger og kveðst býsna sátt við sinn hlut í gær, ekki síst í ljósi þess að hún var á tímabili nánast hætt við Noregsförina.

„Mér gekk mjög illa á EM núna í ágúst [í Plzeň í Tékklandi], sjálfan keppnisdaginn fékk ég útbrot og bólgnaði öll upp, þurfti að fara upp á bráðamóttöku þar úti,“ rifjar Sóley upp, en hún varð fyrir barðinu á svæsnu ofnæmi í Tékklandsförinni sem ekki hefur rjátlast alveg af henni.

„Eftir það hefur þetta verið að koma fyrir, að úfurinn bólgnar upp og þá hef ég þurft að leita á bráðamóttöku. Ég held ég sé búin að fara þangað átta sinnum síðan ég kom heim frá Tékklandi, þeir [læknar] halda að þetta séu eftirköst af ofnæminu sem ég fékk á EM,“ segir kraftlyftingakonan, sem lendir í erfiðleikum með öndun þegar eftirköstin gera vart við sig.

Sjálfstraustið sneri aftur

„Ég fékk svona EpiPen [sprautupenna með adrenalíni til notkunar við bráðaofnæmi] með mér hingað út, en það er mjög stressandi að ferðast vitandi að þetta geti gerst, en ég ákvað svo að taka af skarið,“ segir Sóley sem dreif sig til Stavanger og sér ekki eftir því nú.

„Undirbúningurinn fyrir þetta mót var ekki alveg eins og ég óskaði mér, ég var neikvæð eftir það sem gerðist á EM og ég missti sjálfstraust,“ játar Sóley og lái henni hver sem vill, en óhætt er að segja að hún hafi dottið inn á beinu brautina á sínu fjórða heimsmeistaramóti í gær.

Stangarmennirnir beygja sig með Sóleyju, tilbúnir að grípa inn í …
Stangarmennirnir beygja sig með Sóleyju, tilbúnir að grípa inn í ef á þarf að halda. Sóley fékk slæmt ofnæmi á EM í Tékklandi í ágúst og hefur glímt við eftirköst þess síðan. Hún var á tímabili næstum hætt við Stavanger en tók af skarið og dreif sig út. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

 „Nú ætla ég bara heim og ná hausnum á mér í lag, ég fékk sjálfstraustið aftur eftir mótið í dag og ég fékk ástríðuna fyrir lyftingum aftur. Nú fer ég heim, vinn í sjálfri mér og fer að græja mig fyrir næsta mót,“ segir Sóley með raddblæ sem gefur sterklega til kynna að hugur fylgi máli og er ekki örgrannt um að forvitnilegt verður að fylgjast með þessari ungu kraftlyftingakonu er fram líða stundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert