Jóhanna sjöfaldur Íslandsmeistari

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir vann sjö gullverðlaun á Íslandsmótinu.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir vann sjö gullverðlaun á Íslandsmótinu. mbl.is/Unnur Karen

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir bætti við sínum fimmtu, sjöttu og sjöundu gullverðunum á Íslandsmótinu í sundi í 25 metra laug á Ásvöllum í dag. Jóhanna vann ein gullverðlaun á fyrsta degi á föstudag og bætti við þremur í gær.

Jóhanna var í sveit SH sem kom fyrst í mark í 4x50 metra skriðsundi á 1:45,87 mínútu. Dagbjörg Hlíf Ólafsdóttir, Steingerður Hauksdóttir og Birgitta Ingólfsdóttir voru einnig í sveitinni.

Hún kom einnig fyrst í mark í 100 metra skriðsundi á 54,73 sekúndum og lauk keppni á mótinu með að koma fyrst í mark með sveit SH í 4x100 metra fjórsundi á 4:19,24 mínútum. Katja Lilja Andriysdóttir, Steingerður Hauksdóttir og Birgitta Ingólfsdóttir voru einnig í sveitinni.

Dadó Fenrir Jasmínuson bætti sínum fimmtu gullverðlaunum í safnið í dag. Hann vann einnig eitt gull á föstudag og þrjú í gær.

Dadó Fenrir var í sveit SH sem kom fyrst í mark í 1:31,69 mínútu í 4x50 metra skriðsundi. Símon Elías Statkevicious, Birnir Freyr Hálfdánarson og Daði Björnsson voru einnig í sveitinni en með tímanum settu þeir nýtt Íslandsmet. Gamla metið, sem var 1:32,70, var fjögurra ára gamalt og einnig í eigu SH. Þeir félagar komu einnig fyrstir í mark í 4x100 metra fjórsundi á 3:44,29 mínútum.

14 ára Íslandsmeistari

Hin 14 ára gamla Sunna Arnfinnsdóttir úr Ægi gerði sér lítið fyrir og kom fyrst í mark í 200 metra baksundi og hinn 19 ára gamli Snær Llorens Sigurðsson úr ÍA kom fyrstur í mark í 400 metra fjórsundi í karlaflokki.

Í 200 metra skriðsundi í karlaflokki kom Patrik Viggó Vilbergsson fyrstur í mark á 1:53,83 mínútu og Kristín Helga Hákonardóttir kom fyrst í mark í 100 metra flugsundi í kvennaflokki á 1:03,14 mínútu en þau eru bæði úr Breiðabliki.

Símon Elías Statkevicious úr SH kom fyrstur í mark í 50 metra flugsundi og skákaði Dadó Fenri. Símon kom í mark á 24,49 sekúndum.

Eva með tíu verðlaun

Hin 16 ára Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB vann 50 metra bringusund á 32,98 sekúndum og 200 metra fjórsund á 2:17,92 mínútum. Eva vann samtals sex greinar á mótinu og fékk flest verðlaun allra, tíu samanlagt.

Hinn 17 ára Daði Björnsson kom fyrstur í mark í 200 metra bringusundi á 2:18,66 en hann syndir fyrir SH. Fjölnismaðurinn Kristján Gylfi Þórisson vann 100 metra baksund á 56,38 sekúndum.

Dadó Fenrir Jasminuson vann sex gullverðlaun.
Dadó Fenrir Jasminuson vann sex gullverðlaun. mbl.is/Unnur Karen
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert