Opnaði „þægilega“ í réttstöðulyftunni

Guðfinnur í neðstu stöðu í hnébeygjunni þar sem hann lyfti …
Guðfinnur í neðstu stöðu í hnébeygjunni þar sem hann lyfti 380 kg og reyndi í tvígang við 402,5 sem ekki vildu upp í þetta sinnið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég byrjaði á 380 kílóum í hnébeygjunni. Lyftan var dæmd ógild en dómararnir sneru henni svo mér í hag,“ segir Guðfinnur Snær Magnússon, kraftlyftingamaður úr Breiðabliki, um för sína á HM í kraftlyftingum í Stavanger í Noregi í  gær og má segja að þar hafi hann sannað hið fornkveðna, að fall sé fararheill, því eins og landar hans, Júlían J. K. Jóhannsson og Sóley Margrét Jónsdóttir, gerði Guðfinnur ágæta ferð á sitt fyrsta heimsmeistaramót og hafnaði í 6. sæti, en hann keppir í yfirþungavigt, +120 kg flokki, eins og Júlían.

Töldu dómarar í fyrstu að stöngin hefði sigið niður á við hjá Guðfinni áður en hann kláraði lyftuna, sem er ógildingarsök, en hið rétta var að Guðfinnur stoppaði eitt andartak á leið upp úr beygjunni og kláraði hana svo.

Í næstu atrennu ákvað hann að reyna við 402,5 kg, en náði ekki því sem til var skotið. „Ég er seinn upp á pall og er að flýta mér svolítið og klikka. Þá reyni ég aftur við sömu þyngd, kem þá út úr rekkanum og stilli upp. Svo þegar ég er að lyfta henni upp rek ég lóðin í statífið og missi hana. Og þannig endaði hnébeygjan mín,“ segir Guðfinnur í samtali við mbl.is að móti loknu.

„Ekki alveg minn dagur“

Hann opnar bekkpressuna svo með 295 kg sem léku í höndum hans og færir sig þá yfir á næsta hundrað, í 305 kg. „Ég fann ekki stöðuna á bekknum, skórnir runnu til á gólfinu og ég fékk hana yfir mig. Svo gerist þetta aftur með sömu þyngd í þriðju atrennu, ekki alveg minn dagur svona að þessu leyti til,“ segir Guðfinnur, hress og viðræðugóður.

Hann opnar svo „þægilega“ í réttstöðulyftunni í 300 kg og lyftir þeim vandræðalaust. „Ég og Auðunn [Jónsson] þjálfarinn minn ákváðum bara að hoppa í bætingu í tótal [samanlagðri þyngd] sem yrði þá með þyngdinni 327,5, sem sat alveg inni en var ekki dæmt gilt, þannig er þetta bara. Svo þar sat ég eftir undir mínu besta, 975 kílóum, en skilaði mér í 6. sætið í dag,“ segir Guðfinnur.

Guðfinnur fór létt með 300 kg í réttstöðunni en 327,5 …
Guðfinnur fór létt með 300 kg í réttstöðunni en 327,5 voru einu númeri of stór biti. Hann má þó vel við una, 6. sæti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og gildar lyftur í öllum greinum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

 Sem fyrr segir er þetta hans fyrsta heimsmeistaramót og hann má vel við una. „Heilt á litið er ég mjög sáttur, bara að komast í gegnum þetta mót,“ segir Guðfinnur og kveður undirbúninginn hafa verið býsna stífan síðustu þrjá mánuðina þótt auðvitað hafi mótið svifið um í undirmeðvitundinni allt árið.

„Við kepptum auðvitað á Evrópumeistaramóti í ágúst og þetta er óvenjustuttur tími milli móta. Að komast gegnum þetta mót með gildar lyftur í öllum greinum er bara eitthvað sem ég er mjög ánægður með,“ heldur Guðfinnur áfram og bætir því við að heimsfaraldurinn hafi sett rækilegt strik í reikninginn þar sem þetta mót hefði í raun átt að vera í fyrra, en féll þá niður eins og ástand heimsmála var þá.

Byrjaði í Kópavogslauginni

„Maður fann alveg fyrir því á Evrópumeistaramótinu og eins vorum við í miklu betra formi fyrir heimsmeistaramótið á þeim tíma sem það átti að fara fram í fyrra,“ segir Guðfinnur sem nú sér fram á hvíldartíma og rólegar æfingar um sinn. „Svo byrjar þetta náttúrulega bara aftur, líklega fyrir Evrópumeistaramótið á næsta ári,“ segir hann enn fremur, en Guðfinnur, 24 ára gamall, á níu ár að baki í lyftingunum.

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

 „Þetta byrjaði þannig hjá mér að ég var að æfa þarna í Kópavogslauginni, Actic hét það þá, og systir mín hringir í mig, hún hafði verið inni á Stuðlum sem krakki. Og hún segir við mig: „Heyrðu, ég þekki hérna mann sem var að vinna á Stuðlum, Auðunn heitir hann, er að keppa í kraftlyftingum, hann er alveg rosalegur.“ Já já, sagði ég, hljómar vel, og svo mætti ég á æfingu í Breiðablik í Smáranum og ég fór ekkert aftur út,“ segir Guðfinnur og hlær við, einn þriggja öflugra Íslendinga sem létu að sér kveða á HM í kraftlyftingum í Stavanger í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert