Veit ekki hvar ég væri án pabba

„Ég er gríðarlega þakklátur fjölskyldu minni fyrir allan stuðninginn og sérstaklega pabba auðvitað,“ sagði Sævar Baldur Lúðvíksson, nýkrýndur Norðurlandameistari í skylmingum með höggsverði, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Sævar, sem er 31 árs gamall, byrjaði að æfa skylmingar þegar hann var tíu ára en stærstan hluta ævi sinnar hefur hann glímt við kvíða og þunglyndi vegna ofþyngdar.

Faðir hans, Lúðvík Ögmundsson, hefur staðið afar þétt við bakið á Sævari á hans íþróttaferli og fylgt honum á nánast allar æfingar og keppni síðan hann hóf að stunda skylmingar.

„Pabbi mætti alltaf, jafnvel þótt ég vildi það ekki, og ég veit satt best að segja ekki hvar ég væri eða hvað ég væri að gera ef ekki væri fyrir hann,“ sagði Sævar.

„Honum hefur liðið illa yfir þeirra baráttu sem ég hef verið í og hann kennir sjálfum sér að einhverju leyti um hana. 

Ég horfi alls ekki á það þannig og ég er gríðarlega þakklátur fyrir það að hann sé pabbi minn,“ bætti Sævar við.

Viðtalið við Sævar í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert