Baldvin komst á háskólameistaramót NCAA

Baldvin Þór Magnússon.
Baldvin Þór Magnússon. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Langhlauparinn Baldvin Þór Magnússon keppti í 10 kílómetra víðavangshlaupi á Great Lakes-svæðismótinu sem fór fram í Evansville í Indiana í Bandaríkjunum um helgina. Baldvin hafnaði í 18. sæti á tímanum 30:10,6 mínútum og fékk sérstök svæðisverðlaun fyrir.

Samkvæmt frétt Frjálsíþróttasambands Íslands þurfti Baldvin Þór að bíða og sjá hvort að árangur hans myndi duga honum á bandaríska háskólameistaramótið í víðavangshlaupi sem fer fram um næstu helgi. 

Íþróttasamband háskóla í Bandaríkjunum, NCAA, tilkynnti svo keppendalistann fyrir mótið síðastliðinn laugardag og reyndist Baldvin Þór vera eini keppandinn frá Eastern Michigan-háskólanum sem vann sér inn þátttökurétt á því.

Bandaríska háskólameistaramót NCAA fer fram í Tallahassee í Flórída næstkomandi laugardag.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir hann, að fá að keppa fyrir Eastern Michigan á stærsta sviðinu. Hann átti gott mót í Flórída fyrr á tímabilinu og sú reynsla ætti að hjálpa honum á laugardaginn,“ sagði Sue Parks yfirþjálfari Eastern Michigan háskólans í viðtali á heimasíðu skólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert