HK og Völsungur mættust tvisvar í úrvalsdeild kvenna í blaki í Digranesi um helgina. Þar hafði HK betur í báðum leikjunum.
Á laugardaginn byrjaði HK leikinn af miklum krafti og komst í 5:0 forystu í fyrstu hrinu en um miðja hrinu var leikurinn orðinn jafn þar sem Völsungur jafnaði í 13:13. Völsungur hélt hins vegar ekki út og vann HK fyrstu hrinuna 25:21.
Í hrinu tvö byrjaði Völsungur betur og komst í 0:4 forystu en það dugði ekki lengi og HK vann hrinuna örugglega 25:16. Þriðja hrinan var jöfn nánast allan tímann en voru heimakonur sterkari undir lokin og unnu 25:21, sem skilaði þeim 3-0 sigri í fyrri leik liðanna.
Lejla Sara Hadziredzepovic var stigahæst í liði HK með 12 stig en Kyisha Racole Hunt, nýr leikmaður Völsungs, skoraði 11 stig fyrir gestina.
Í gær mættust liðin svo í annað sinn. Ekki breyttist mikið í leiknum frá deginum áður þar sem HK vann leikinn aftur 3:0.
Völsungur spilaði vel og fyrsta hrinan var jöfn en HK konur þó sterkari og unnu hana að lokum 25:22. Í annarri hrinu voru heimakonur þó mun sterkari og unnu hana afar örugglega, 25:11. Í þriðju hrinu var þó aftur allt aftur hnífjafnt en HK-konur voru sterkar í lok hrinunnar og unnu hana 25:23.
Stigahæst í síðari leiknum var Heba Sól Stefánsdóttir, leikmaður HK, með 12 stig. Stigahæst í liði Völsungs var Tamara Kaposi með 9 stig.
Eftir helgina er HK í 2. sæti úrvalsdeildarinnar með 14 stig en Völsungur í 7. sæti og bíður ennþá eftir fyrsta sigrinum.
Næsti leikur HK er næstkomandi laugardag gegn KA í Digranesi. Völsungur mætir næst Þrótti/ Fjarðabyggð í Neskaupstað á miðvikudaginn í næstu viku.