Aksturskappinn Lewis Hamilton vann einn sinn fræknasta sigur á ferlinum þegar hann kom fyrstur í mark í kappakstrinum í Sao Paulo í Brasilíu í Formúlu-1 í gær.
Hamilton hóf aksturinn tíundi á ráspól eftir að hafa þurft að sæta refsingu þar sem Mercedes-bifreið hans var ekki tæknilega rétt sett upp, en hann átti að byrja fremstur.
Þrátt fyrir það vann hann sig framar og framar og tók fram úr helsta keppinauti sínum, Max Verstappen, þegar 12 hringir voru eftir af akstrinum í gær.
Hamilton sagði sjálfur eftir sigurinn að líklega væri um bestu frammistöðu hans á 15 ára ferli sínum að ræða.
Með sigrinum opnaði Hamilton titilbaráttuna upp á gátt þegar þrír kappakstrar í Mið-Austurlöndum eru eftir af tímabilinu í Formúlu-1.
Hefði Verstappen sigrað í gær hefði honum nægt að lenda í öðru sæti í öllum þremur keppnunum sem eru eftir þar sem hann er efstur að stigum.