Rússinn Alexander Ovechkin er orðinn fjórði markahæsti leikmaður NHL-deildarinnar í íshokkí frá upphafi.
Þegar Ovechkin skoraði mark númer 742 fyrir Washington Capitals gegn Columbus Blue Jackets fór hann upp fyrir Brett Hull á listanum.
Ovechkin fór upp í fimmta sæti listans í fyrsta leiknum á tímabilinu í haust. Hann er á sínu sautjánda tímabili í deildinni og hefur ávallt leikið með Washington.
Jaromir Jagr er þriðji á listanum yfir þá markahæstu með 766 mörk og Ovechkin nær honum því ekki alveg á næstunni. En Rússinn er til alls líklegur því ferill hans hefur verið magnaður. Eftir að hafa leikið 1.212 leiki í þessari erfiðu deild hefur hann skorað 742 mörk og gefið 604 stoðsendingar.
Goðsögnin Wayne Gretzky er efstur á listanum með 894 mörk en Gretzky hefur sagt í viðtölum að hann telji Ovechkin eiga möguleika á að slá sér við. Hann sé enn það góður leikmaður og sé í sterku liði.