Sorfið til stáls í Stavanger

Íslenski hópurinn, keppendur ásamt öflugu klappliði, þjálfurum og Sigurjóni Péturssyni …
Íslenski hópurinn, keppendur ásamt öflugu klappliði, þjálfurum og Sigurjóni Péturssyni lengst til hægri, varaformanni Kraftlyftingasambands Íslands. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum, sem fram fór í Stavanger í Noregi, lauk á laugardaginn, eins og mbl.is hefur fjallað um með viðtölum við íslensku keppendurna þrjá um helgina, þau Júlían J. K. Jóhannsson, Guðfinn Snæ Magnússon og Sóleyju Margréti Jónsdóttur, sem öll mega vera sátt við sitt, sumt fór upp og annað ekki, algeng saga af lyftingamótum.

Mót af slíkri stærðargráðu er ekki haldið á einum degi, skráðir keppendur voru tæplega 230, 109 í kvennaflokkum og 119 í flokkum karla, alls 16 þyngdarflokkum, átta hjá hvoru kyni. Hófst mótið á mánudaginn fyrir viku og stóð í sex daga í íþróttahöllinni í Stavanger. Ekki voru það þó Stavanger-búar sjálfir sem höfðu veg og vanda af mótinu heldur kraftlyftingafélag nágrannabæjarins Sandnes, Sandnes Atletklubb, sem kalla má hokið af reynslu því félagið hélt einnig utan um heimsmeistaramótin árin 2006 og 2013 í sama húsnæði.

Dómaragengið kynnt til leiks og ljóst að fleiri en einn …
Dómaragengið kynnt til leiks og ljóst að fleiri en einn og fleiri en tveir í þeim hópi hafa fengið smjörþefinn af stálinu um dagana. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Keppendur komu frá alls 30 löndum en eðlilega fylgdu býsna misstór klapplið frá þátttökulöndum og ætti fáum að koma á óvart að Norðmenn og Svíar voru þar fjölmennastir á meðan Danir og Íslendingar áttu fámenna en mjög öfluga hópa á pöllunum sem létu vel í sér heyra. Greindi kraftlyftingasamband Noregs sérstaklega frá því á heimasíðu sinni fyrir mótið, að frést hefði að íbúar smábæjarins Sauda í Rogaland hefðu efnt til samskota og leigt rútu undir stuðningsmannahóp sinnar manneskju, Hildeborg Hugdal, sem var nær óstöðvandi á mótinu og hafnaði að lokum í 2. sæti í +84 kg flokki með 687,5 kg í samanlögðu.

Hildeborg Juvet Hugdal frá Sauda í Rogaland fékk heila rútu …
Hildeborg Juvet Hugdal frá Sauda í Rogaland fékk heila rútu af stuðningsmönnum með sér sem bæjarbúar efndu til samskota til að leigja og djöfluðust þeir vel á pöllunum. Hugdal lét sér fátt fyrir brjósti brenna og hreppti 2. sætið í +84 kg flokki með 687,5 kg í samanlögðu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Ekki töldu Norðmenn og Svíar eftir sér að fagna frændum sínum Íslendingum af festu og þunga og ætlaði þakið nær af höllinni þegar Sóley Margrét hóf upp 165 og 180 kg í bekk fyrirhafnarlítið og ekki síður þegar millimetrar skildu á milli feigs og ófeigs hjá henni í 192,5 kg sem hefði verið rækileg bæting hjá henni frá hennar mestu þyngd, 180 kg.

Hin sænska Sofia Kamlund átti stuðninginn vísan frá samstilltu gulu …
Hin sænska Sofia Kamlund átti stuðninginn vísan frá samstilltu gulu og bláu klappliði á pöllunum, vel flúruð og hrikaleg með litskrúðugan makkann. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hin sænska Sofia Kamlund í -84 kg flokki vakti verðskuldaða athygli fyrir hressleika sinn á sviðinu og hár í öllum regnbogans litum og studdi sænska klappliðið hana með ráðum og dáð. Átti Kamlund góða spretti í hnébeygju, endaði í 222,5 kg í þriðju lyftu sinni auk þess að lyfta 140 kg í bekkpressu með góðum stíl.

Sóttvarnir voru í hávegum hafðar á HM, enda veiran hvimleiða …
Sóttvarnir voru í hávegum hafðar á HM, enda veiran hvimleiða enn einu sinni í sókn í Noregi sem á Íslandi. Viðstöddum var boðið að prófa sig að vild og var á köflum röð við prófunarborðið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Dómgæsla var að miklu leyti í höndum breska heimsveldisins auk þess sem kynnir mótsins rakti ætt sína þangað ef marka mátti framburð hans og fær hann toppeinkunn fyrir frammistöðu sína, stóð reyndar bak við töluverðan hluta stemmningarinnar í salnum og tók virkan þátt í sigrum og ósigrum keppenda, svo sem með hughreystingum á borð við „no sorry [nafn], it didn't work out this time...“ og fleiri frösum góðum.

Breski kynnirinn tók virkan þátt í gleði og sorgum keppenda, …
Breski kynnirinn tók virkan þátt í gleði og sorgum keppenda, hrósaði þeim sem höfðu stöngina upp og grét með þeim sem gerðu ógilt. „And the bar is loaded!“ var viðkvæði hans með miklum tilþrifum þegar næsti keppandi var boðaður á sviðið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Valkyrjan Hugdal frá Sauda var ekki sú eina úr röðum Norðmanna sem gat sér góðan orðstír í kvennaflokki, Marte Elverum nældi sér í 2. sætið í -76 kg flokki með 630 kg í samanlögðu auk þess sem Anna Heranger Sorlie og Eline Skalleberg lentu báðar í 4. sæti, Sorlie í -84 kg flokki og Skalleberg í -69 kg, reyndar hafnaði Noregur í öðru sæti á eftir Rússum að heildarstigum í kvennaflokki en norska karlasveitin í 5. sæti þeim megin, en þar voru Rússar einnig stigahæstir.

Yfirburðasigur Júlíans J. K. Jóhannssonar í hans höfuðgrein, réttstöðulyftunni, 380 …
Yfirburðasigur Júlíans J. K. Jóhannssonar í hans höfuðgrein, réttstöðulyftunni, 380 kg. Reyndi hann við 400 í þriðju umferð og hafði ekki að þessu sinni en á þó 409 kg í greininni og lauk keppni með 390 kg á EM í Tékklandi í ágúst. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í röðum Rússanna munaði mjög um þær stöllur Dariu Efimtsevu og Önnu Kukharevu í +84 kg flokknum, en sú fyrrnefnda var hreinlega hrikaleg og hafnaði í fyrsta sætinu með 707,5 kg í samanlögðu, Kukhareva í því þriðja með 650 kg.

Þjóðfáninn á sínum stað í íþróttahöllinni í Stavanger.
Þjóðfáninn á sínum stað í íþróttahöllinni í Stavanger. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Í -74 kg flokki karla hreppti Norðmaðurinn Kjell Egil Bakkelund fyrsta sæti með 857,5 kg í samanlögðu og Asgeir Hoel 4. sæti í -105 kg flokki með 972,5 kg og áttu þeir félagar besta árangur karlasveitar Noregs.

Ekki er hægt að hlaupa yfir nafn hins rússneska Andrei Konovalov sem bar sigur úr býtum í flokki stóru strákanna, +120, með 1.165 kg í samanlögðu, 75 kílógrömmum meira en Toyota Yaris vegur. Lyfti Konovalov 452 og hálfu kílói í hnébeygju í annarri atrennu sinni þar, en varð að láta í minni pokann fyrir 470 kílóunum sem hann reyndi við í þeirri þriðju. Þá lyfti hann 362,5 kg í bekkpressu og 350 í réttstöðulyftu.

„Rýrt mun verða fyrir honum smámennið,“ sagði Sigurður svínhöfði um …
„Rýrt mun verða fyrir honum smámennið,“ sagði Sigurður svínhöfði um Gunnar á Hlíðarenda og hefði án efa kveðið upp sama dóm um egypska bergrisann Ahmed Hassanin sem þekkti engin mörk og reyndi við fáheyrð 505,5 kg í hnébeygju þótt ekki færi það hlassið upp á laugardaginn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Meðal keppenda sem lengi verða áhorfendum í Stavanger í fersku minni, að minnsta kosti þeim er hér ritar, má nefna hinn hroðalega Egypta Ahmed Hassanin sem fór hamförum undir stönginni og lyfti 470 kg í hnébeygju, þyngdinni sem sigurvegarinn Konovalov heyktist á, auk þess að reyna við 505,5 kg sem fóru þó ekki upp að þessu sinni. Lauk Hassanin keppni í 4. sæti í +120 kg flokki með 1.085 kg í samanlögðu.

Hinn rúmenski Florin Ionut Lupas var ógurlegur ásýndum og hafði …
Hinn rúmenski Florin Ionut Lupas var ógurlegur ásýndum og hafði jafnan uppi mikil tilþrif við lyftur sínar. Hann lauk keppni með rúmt tonn í samanlögðu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Annar eftirminnilegur úr sama flokki er tvímælalaust Rúmeninn Florin Ionut Lupas, sem lenti í 5. sæti, einu sæti ofar en Guðfinnur Snær Magnússon. Lupas lauk keppni með 1.022,5 kg í samanlögðu og átti nokkrar góðar lyftur, þar á meðal 410 kg í hnébeygju, skeggjaður og ógurlegur, svo þaninn að ætla mætti að hann næði Chandrasekhar-mörkum stjarneðlisfræðinnar þá og þegar, félli í kjölfarið saman undan eigin massa og myndaði svarthol. Stavanger og nágrenni slapp þó við slíkar hremmingar að þessu sinni.

Áhorfendapallarnir fylltust þegar líða tók á daginn og voru Svíar …
Áhorfendapallarnir fylltust þegar líða tók á daginn og voru Svíar og Norðmenn þar fjölmennir. Fögnuðu þeir íslensku keppendunum ákaft og mátti jafnvel heyra vonbrigðastunur þegar stöngin endaði ekki á réttum stað hjá Frónbúum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Vel skipulagt og spennandi heimsmeistaramót í Stavanger, mikil tilþrif og góð skemmtun, að ógleymdri flottri sveit frá Íslandi sem átti vel upp á pallborðið hjá áhorfendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert