Alfa Romeo liðið í Formúlu 1 hefur tilkynnt að Kínverjinn Guanyu Zhou muni keyra annan bíl þeirra á næsta tímabili. Zhou verður þar með fyrsti kínverski ökumaðurinn í Formúlu 1 frá upphafi. Þar með hafa öll lið tilkynnt sína tvo ökumenn fyrir tímabilið 2022.
Zhou, sem hefur getið sér gott orð í Formúlu 2, mun taka sæti Ítalans Antonio Giovinazzi sem hefur verið hjá liðinu í þrjú ár. Giovinazzi mun því ekki verða aðalökumaður neins liðs nema eitthvað stórfenglegt breytist. Alfa Romeo munu mæta til leiks með tvo nýja ökumenn á næsta ári en Finninn Kimi Räikkönen hefur gefið það út að þetta sé hans síðasta tímabil á ferlinum. Í staðinn fékk Alfa Romeo landa Räikkönen, Valtteri Bottas, sem hefur frá árinu 2017 keyrt við hlið heimsmeistarans Lewis Hamilton hjá Mercedes.
Í stað Bottas fékk Mercedes Bretann unga og efnilega George Russell, sem hefur gert fína hluti hjá Williams. Í stað Russell hefur Williams svo fengið Alex Albon, sem áður hefur keyrt fyrir Toro Rosso[Alpha Tauri] og Red Bull. Aðrir ökumenn munu halda sínum sætum fyrir næsta tímabil.
Staðfesta uppröðun ökumanna fyrir árið 2022 má sjá hér að neðan:
Mercedes: Lewis Hamilton og George Russell
Red Bull: Max Verstappen og Sergio Peréz
Ferrari: Charles Leclerc og Carlos Sainz
McLaren: Lando Norris og Daniel Ricciardo
Alpine: Fernando Alonso og Esteban Ocon
Alpha Tauri: Pierre Gasly og Yuki Tsunoda
Aston Martin: Sebastian Vettel og Lance Stroll
Williams: Alex Albon og Nicholas Latifi
Alfa Romeo: Valtteri Bottas og Guanyu Zhou
Haas: Nikita Mazepin og Mick Schumacher