Svissneski tennisleikarinn Roger Federer hefur staðfest að hann muni missa af Opna ástralska meistaramótinu á næsta ári og þykir ólíklegt að hann nái að taka þátt á Wimbledon-mótinu næsta sumar.
Mótið í Ástralíu fer fram í janúar. Federer lék síðast í júlí síðastliðnum þegar hann var sleginn út í fjórðungsúrslitum Wimbledon þessa árs. Í kjölfarið fór hann í enn eina skurðaðgerðina á hné og er nú að jafna sig á henni.
„Ég yrði afar hissa ef ég gæti spilað á Wimbledon. Ég mun geta byrjað að skokka létt í janúar og get hafið æfingar á tennisvellinum með flókinni hnéhlíf í mars eða apríl. Ég býst því við að snúa aftur til keppni sumarið 2022,“ sagði Federer í samtali við Le Matin.
Wimbledon hefst í lok júní á næsta ári og væri því innan þess tímaramma en Federer gerir fremur ráð fyrir endurkomu síðsumars. Hann er orðinn fertugur og hefur unnið 20 stóra titla á ferlinum en kveðst áfjáður í að hætta að spila á eigin forsendum.
„Metnaður minn liggur í því að sjá hvað ég er fær um að gera í eitt lokaskipti. Ég vil gjarna kveðja á minn eigin hátt og á tennisvelli. Þess vegna er ég að leggja mig allan fram í endurhæfingunni.
Lífið mitt mun ekki falla saman ef ég tek ekki þátt í úrslitum stórmóts aftur. En það væri minn æðsti draumur að ná því aftur. Og ég trúi því enn að ég geti það. Ég trúi á þess lags kraftaverk,“ bætti Federer við.