Ber skylda til að vekja athygli á mannréttindabrotum

Lewis Hamilton á blaðamannafundinum í dag.
Lewis Hamilton á blaðamannafundinum í dag. AFP

Aksturskappinn Lewis Hamilton hjá Mercedes segir að Formúlu-1 beri skylda til þess að vekja athygli á mannréttindabrotum í þeim löndum þar sem kappakstrar á vegum þess fara fram og slík brot eru daglegt brauð.

Um næstu helgi fer Formúlu-1 kappakstur fram í Katar í fyrsta sinn og viku síðar fer slíkur kappakstur fram í Sádi-Arabíu í fyrsta sinn.

„Þegar íþróttir fara til þessara staða er það skylda hreyfinga þeirra að vekja athygli á þessum vandamálum. Þessir staðir þurfa vandlega athugun. Jafnrétti er grafalvarlegt mál,“ sagði Hamilton á blaðamannafundi í Lusail í Katar í dag.

Samkvæmt mannréttindasamtökunum Amnesty International er staða mannréttinda í báðum ofangreindum löndum sérstaklega uggvænleg. Í Katar hefur skortur á málfrelsi og ill meðferð á farandverkamönnum, sérstaklega í tengslum við byggingar á leikvöngum fyrir HM 2022 í knattspyrnu, verið harðlega gagnrýnt.

„Ég átta mig á því að hér er verið að reyna að taka skref og að þetta breytist ekki á einni nóttu,“ bætti hann við og sagðist óska þess að fleiri íþróttamenn, bæði karlar og konur, myndu ræða þessi mál.

„Ein manneskja getur bara komið á fót einhverri smá breytingu en í sameiningu getum við haft meiri og betri áhrif. Ég hef ferðast til margra af þessum löndum og verið fáfróður, ómeðvitaður um sum vandamálanna sem eru til staðar á þessum stöðum.

Þetta snýst um hvort þú ákveðir að fræðast um þetta og draga íþróttina til meiri ábyrgðar og ganga úr skugga um að hreyfingin geri raunverulega eitthvað í þessum málum þegar við förum þangað,“ sagði Hamilton einnig.

Hann kvaðst vilja nota rödd sína sem frægur maður til þess að vekja athygli á þessum málum. „Þess vegna hef ég reynt að láta í mér heyra, en það er mun gáfaðra fólk en ég sem veit meira um þessi vandamál og eru að reyna að berjast gegn þeim í bakgrunninum.

Ég held samt sem áður að við ættum að vekja athygli á þessu og stuðla að því að þetta sé skoðað og sú pressa getur vonandi leitt til breytinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert