Erfitt að mæta ekki á æfingar

Margrét Lea Kristinsdóttir hefur æft fimleika frá því hún var …
Margrét Lea Kristinsdóttir hefur æft fimleika frá því hún var þriggja ára gömul en líf hennar snýst að stórum hluta um íþróttina og að þjálfa. Ljósmynd/FSÍ

Fimleikakonan Margrét Lea Kristinsdóttir náði frábærum árangri á Norður-Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem fram fór í Cardiff í Wales um síðustu helgi.

Margrét Lea, sem er 19 ára gömul, hafnaði í öðru sæti í gólfæfingum með 12.550 stig og var ekki langt frá því að vinna til gullverðlauna í greininni.

Hún hefur æft fimleika frá því hún var þriggja ára gömul með fimleikafélaginu Björk og snýst líf hennar að stórum hluta um íþróttina.

„Tilfinningin eftir Norður-Evrópumótið er frábær og ég var staðráðin í því að ná í verðlaunasæti í Cardiff,“ sagði Margrét Lea í samtali við Morgunblaðið.

„Ég hef þurft að gera mér fjórða sætið að góðu á undanförnum mótum og ég lagði því allt í sölurnar til þess að vinna til verðlauna núna Það gekk sem betur fer eftir og það munaði í raun mjög litlu að mér tækist að enda í efsta sætinu í gólfæfingunum. Það munaði 0,2 stigum á mér og Töru Donnelly frá Bretlandi en að endingu var það hún sem fagnaði sigri í greininni.

Auðvitað var ég mjög ánægð með minn árangur og allt það en þegar ég sá hversu litlu munaði á okkur tveimur þá kom upp smá svekkelsi. Það þýðir hins vegar ekki svekkja sig of mikið á þessu og þessi litli munur sýndi mér líka hvað það er stutt á milli í þessu. Ég veit hvað ég þarf að gera til þess að bæta mig ennþá frekar og þetta gefur mér bæði sjálfstraust og hvatningu, farandi inn í næsta keppnistímabil,“ sagði Margrét Lea.

Reynslunni ríkari

Þrátt fyrir ungan aldur er Margrét Lea reynslumikil þegar kemur að stórmótum í fimleikum.

„Þetta var mitt þriðja stóra mót á árinu en ég fór á Evrópumeistaramótið í Basel í Sviss í apríl og svo á heimsmeistaramótið í Japan í október. Ég get alveg viðurkennt það að ég er oft mjög stressuð á þessum stærstu mótum en maður er alltaf að læra líka og stressið minnkar eftir því sem maður keppir oftar. Ég er líka orðin betri í því að stjórna eigin tilfinningum á þessum stærstu mótum og það tókst mjög vel núna í Wales.

Gólfæfingin mín var blanda af stökkseríum, splitthoppum, pirouette og dansi. Það er svo dómaranna að dæma hver framkvæmir æfinguna best en keppendur sýna misjafnar útgáfur, það er að segja sumir gera erfiðari æfingar á meðan aðrir gera léttari æfingar. Mér leið strax mjög vel eftir mína æfingu og ég var nokkuð sannfærð um að ég hefði neglt hana.“

Lífið snýst um fimleika

Fimleikakonan hefur helgað líf sitt íþróttinni en álagsmeiðsli hafa þó gert henni erfitt um vik.

„Keppnistímabilið er búið að vera langt og þetta var síðasta mót tímabilsins. Ég er búin að leggja áherslu á þessa tilteknu æfingu síðan í sumar og hef æft hana tvisvar á dag í hverri viku, þrjá og hálfan tíma á dag, síðan um mitt sumar. Ég er líka að þjálfa fimleika hjá Björk og það er alveg óhætt að segja að líf mitt snúist um fimleika.

Viðtalið við Margréti Leu má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert