„Það verður bara að koma í ljós hvað maður endist lengi í þessu,“ sagði Júlían J. K. Jóhannsson, margfaldur heims- og Evrópumeistari í réttstöðulyftu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Júlían, sem er 28 ára gamall, byrjaði að æfa kraftlyftingar þegar hann var fimmtán ára gamall og hefur náð undraverðum árangri í íþróttinni á þeim tíma.
Hann setti heimsmet í réttstöðulyftu á heimsmeistaramótinu í Dubai árið 2019 þegar hann lyfti 405,5 kg og er ríkjandi heimsmethafi í greininni í dag. Þá var hann var útnefndur íþróttamaður ársins í kjöri íþróttafréttamanna sama ár en fimm sinnum hefur hann hlotið nafnbótina kraftlyftingamaður ársins.
„Á meðan mér finnst þetta gaman og ég get stundað íþróttina af krafti þá mun ég halda áfram að gera það,“ sagði Júlían.
„Markmiðið er að verða heimsmeistari í samanlögðum árangri og um það snýst þetta allt hjá mér í dag. Það er auðvitað ákveðin rómantík sem felst í því að hætta á toppnum en það er enn þá rómantískara, að mínu mati, að gera það ekki. Á sama tíma á maður bara að hætta þegar maður er sjálfur tilbúinn og ég er klárlega ekki kominn á þann stað,“ sagði Júlían.