„Það kemur aldrei til greina að sleppa æfingu, eins skrítið og það hljómar,“ sagði Júlían J. K. Jóhannsson, margfaldur heims- og Evrópumeistari í réttstöðulyftu, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Júlían, sem er 28 ára gamall, er ríkjandi heimsmethafi í réttstöðulyftu en hann lyfti 405,5 kg á heimsmeistaramótinu í Dubai árið 2019.
Hann hefur verið á meðal fremstu íþróttamanna landsins undanfarin ár og var kjörinn íþróttamaður ársins 2019 af samtökum íþróttafréttamanna.
„Þetta snýst um að koma hlutunum upp í vana og ég hef þrettán ára reynslu af því,“ sagði Júlían.
„Þú þarft að forgangsraða og þegar allt kemur til alls snýst þetta um þá hluti sem maður þráir helst af öllu. Punktur.
Auðvitað eru fórnir í þessu eins og öllu öðru en þetta er mín vegferð og mínar ákvarðanir. Ég iðrast einskis og sé ekki eftir neinu,“ sagði Júlían.
Viðtalið við Júlían í heild sinni má nálgast með því að smella hér.