Öruggur sigur KA

Lejla Sara Hadziredzepovic, leikmaður HK, í sókn gegn KA.
Lejla Sara Hadziredzepovic, leikmaður HK, í sókn gegn KA. Ljósmynd/Þorsteinn Gunnar Guðnason

KA sigraði HK 3:0 í úrvalsdeild kvenna í blaki í KA-heimilinu í gærkvöldi.

Fyrsta hrinan var mjög spennandi og ljóst að hvorugt liðið ætlaði sér að gefa neitt eftir. Liðin skiptust á stigum framan af en um miðja hrinu tók KA fram úr og hélt þeirri forystu út hrinuna sem endaði 25:22. 

KA byrjaði aðra hrinuna af miklum krafti og átti HK fá svör við góðu spili KA sem hreinlega völtuðu yfir andstæðinga sína 25:13. 

HK var þá komið með bakið upp við vegg. Þriðja hrinan var jöfn og var ljóst að bæði liðin ætluðu sér sigur í þriðju hrinunni. Upphækkun þurfti til að skera úr sigurvegara en KA var sterkari í lok leiks og kláraði hrinuna 27:25 og þar með leikinn 3:0.

Tea Andric var stigahæst í liði KA með 16 stig en í liði HK var það Lejla Sara Hadziredzepovic með 10 stig. 

KA er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex leiki. HK er í þriðja sæti með 14 stig eftir átta leiki.

Næst ferðast HK austur í Neskaupstað helgina 4. og 5. desember en næsti leikur KA er gegn Völsung þann 1. desember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert