Gull- og silfurregn í Stavern

Bergrós, Úlfhildur og Sólveig eftir glæsilega frammistöðu í dag. Tinna …
Bergrós, Úlfhildur og Sólveig eftir glæsilega frammistöðu í dag. Tinna Stefnisdóttir hreppti einnig verðskuldað silfur í sínum þyngdarflokki svo Íslendingar mega bera höfuð sín hátt eftir daginn í dag. Enn er þó einn keppnisdagur eftir svo við spyrjum að leikslokum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Íslenskar lyftingastúlkur gerðu góða för á Norðurlandameistaramót unglinga og ungmenna, undir 17 ára og undir 20 ára, í ólympískum lyftingum sem nú stendur yfir í Stavern í Noregi. Varð Úlfhildur Unnarsdóttir þar Norðurlandameistari í 71 kg flokki, Bergrós Björnsdóttir hreppti silfrið auk þess sem Sólveig Þórðardóttir varð silfurverðlaunahafi í 76 kg flokki og Tinna Stefnisdóttir í 64 kg flokki, allt saman við gríðarleg fagnaðarlæti viðstaddra Íslendinga sem í heildina voru um 20 á áhorfendapöllunum.

„Mér líður vel, í sjokki, eða bara pínu,“ segir Úlfhildur Unnarsdóttir glaðbeitt í sameiginlegu spjalli þeirra Bergrósar og Sólveigar við mbl.is að lokinni verðlaunaafhendingu í þeirra flokkum þar sem íslenski þjóðsöngurinn var leikinn í salnum og Íslendingahópurinn söng við raust, í skýjunum yfir árangri stúlknanna. Sá sem hér skrifar hreyfði alla vega varirnar væri einhver að horfa.

Íslenski þjóðsöngurinn leikinn við verðlaunaafhendingu í 71 kg flokki og …
Íslenski þjóðsöngurinn leikinn við verðlaunaafhendingu í 71 kg flokki og rann íslenska stuðningshópnum blóðið til skyldunnar að kasta textanum fram. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Skrýtið að keppa á móti löndu sinni

„Mér gekk mjög vel,“ heldur Úlfhildur áfram, „ég ákvað að vera ekki of „cocky“ og reyna við það sem ég vissi að ég gæti og það borgaði sig, ég bætti mig um eitt kíló og setti Íslandsmet í snörun,“ segir Norðurlandameistarinn nýbakaði, en Úlfhildur lyfti 181 kg í samanlögðu, sem einnig er Íslandsmet, 83 kg í snörun og 98 í jafnhendingu, jöfnun á hennar eigin Íslandsmeti, en fyrir þá sem ekki eru verseraðir í fræðunum gengur snörun (e. snatch) út á að lyfta stöng með útrétta arma í einni samfelldri hreyfingu upp fyrir höfuð, en jafnhending (e. clean and jerk) er lyfting í tveimur hreyfingum upp fyrir höfuð og kallast fyrri áfanginn þar frívending og sá síðari jafnhöttun.

Gullið heim. Úlfhildur á fyrstasætispallinum með Bergrós sér við hlið. …
Gullið heim. Úlfhildur á fyrstasætispallinum með Bergrós sér við hlið. Í þriðja sæti varð Tine R. Pedersen, augljóslega norsk af fánanum að dæma. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Spurð um samkeppnina í þyngdarflokknum hlær Úlfhildur dátt. „Mér finnst skrýtið að keppa á móti íslenskri stelpu,“ játar hún og Bergrós flokkssystir hennar brosir breitt á bekknum við hlið hennar í tómum búningsklefa sem tekinn var traustataki undir viðtöl. „Maður vill auðvitað vinna en langar líka að gangi vel hjá öðrum. Við erum með tvo íslenska þjálfara sem eru að hvetja okkur báðar og þetta er mjög skrýtið, ég hef aldrei verið í svona harðri samkeppni við íslenska stelpu áður,“ segir Úlfhildur, en þjálfari hennar er Eggert Ólafsson, þó ekki skáld og náttúrufræðingur, hverjum hún ber ákaflega vel söguna.

Úlfhildur sýnir sitt rétta andlit sem, að sögn móður hennar, …
Úlfhildur sýnir sitt rétta andlit sem, að sögn móður hennar, er ákaflega sjaldgæft. Þarna hafði hún naumlega misst 97 kg en sneri vörn í sókn og reif 98 kg upp með tilþrifum, Norðurlandamet í flokknum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson


Fróðlegt er að geta þess að þjálfari móður Úlfhildar, Helgu Hlínar Hákonardóttur, Evrópumeistara í sínum þyngdarflokki í ólympískum lyftingum, er Unnar Helgason, faðir Úlfhildar og um leið eiginmaður Helgu Hlínar, sem fagnaði dóttur sinni og öðrum íslenskum afreksstúlkum af innileika úr áhorfendastúku í dag, svo þjálfaramál fjölskyldunnar eru margslungin.

Bergrós stefnir á Heimsleikana

Kveður Úlfhildur undirbúning fyrir mótið hafa gengið svo sem best verður á kosið, en ekki er lengra síðan en í október að hún hafnaði í 9. sæti á HM í Sádi-Arabíu auk þess að setja þar Íslandsmetið sem hún jafnaði í dag, svo hér er skammt stórra högga á milli og verður áfram, en fram undan hjá Úlfhildi, sem búsett er í Gautaborg í Svíþjóð, er sænska meistaramótið í greininni í Landskrona í Svíþjóð og þar á eftir EM og HM 2022 svo dagskráin er þétt hjá Norðurlandameistaranum.

Stoltir foreldrar, Unnar Helgason, hreystihvíslarinn eins og hann er kallaður, …
Stoltir foreldrar, Unnar Helgason, hreystihvíslarinn eins og hann er kallaður, og Helga Hlín Hákonardóttir, héraðsdómslögmaður og Evrópumeistari í ólympískum lyftingum, voru verulega ánægð með dóttur sína og fleiri íslenska keppendur í dag. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Bergrós Björnsdóttir situr næst fyrir svörum og líður að eigin sögn vel. „Auðvitað vildi ég vera í fyrsta sæti svo það er auðvitað svekkjandi, en hún á þetta alveg skilið, ég er mjög glöð fyrir hennar hönd að hafa tekið fyrsta,“ játar hún um Úlfhildi stöllu sína og valkyrjurnar þrjár brosa í kór á bekknum. „Ég náði 80 í snörun sem er minn besti árangur og það var markmiðið,“ segir Bergrós sem í dag lyfti 177 kg í samanlögðu og æfir undir merkjum Ungmennafélags Selfoss þótt hún rífi einnig mikið í stálið í höfuðborginni. „Svo tók ég 97 í clean and jerk sem er alveg sex kílóa bæting, svo fór ég í 102 og hefði ég náð því hefði ég tekið fyrsta sæti, en ég náði því ekki þannig að...já,“ segir Bergrós brosandi, en atlaga hennar að 102 kílóunum var ágæt þótt ekki færi sú þyngd upp í dag hjá þessari 14 ára gömlu valkyrju sem stundað hefur ólympískar lyftingar í tvö ár en jafnframt iðkað crossfit af krafti. „Þar er stefnan bara sett á Games [World Games, Heimsleikana]...“, „hún nær því,“ grípur Úlfhildur fram í af sannfæringarkrafti, en auk Heimsleikanna stefnir Bergrós á EM og HM í sínum aldursflokki í ólympísku lyftingunum.

Er hjá „geggjuðum þjálfara“

„Mér líður bara ótrúlega vel,“ svarar Sólveig Þórðardóttir, aldursforsetinn í hópnum, 17 ára gömul, og silfurverðlaunahafi í 76 kg flokki, innt eftir líðan. „Mér gekk ekki vel í snatchinu [snörun], ég opnaði í 60 og náði því ekki og vildi bara vera ógeðslega örugg svo ég tók bara 60 aftur og náði því og fór svo í 63 sem er tveimur kílóum undir mínu besta,“ heldur hún áfram en samanlagður árangur Sólveigar í dag var 143 kg. „Ég fór svo í 78 sem var bæting og svo í 80 sem var líka bæting, um fjögur kíló,“ segir Sólveig sem æfir hjá Lyftingafélagi Reykjavíkur, en hóf feril sinn í stálinu hjá Lyftingafélagi Kópavogs árið 2017.

Tinna Stefnisdóttir sveiflaði stönginni sem væri hún tannstöngull og fékk …
Tinna Stefnisdóttir sveiflaði stönginni sem væri hún tannstöngull og fékk verðskuldaða silfurmedalíu um hálsinn eftir sterkan dag íslenskra stúlkna á NM. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hún kann þó betur við sig hjá Reykjavíkurfélaginu og ber við „geggjuðum þjálfara“ sem við eftirgrennslan reynist einmitt vera téður Eggert Ólafsson. „Mig langar að reyna að komast inn á EM og HM í U-20, þetta var síðasta mótið mitt í U-17,“ segir Sólveig Þórðardóttir að lokum, síðust á mælendaskrá afrekskvennanna þriggja að ógleymdri þeirri fjórðu, Tinnu Stefnisdóttur sem hampaði silfurpeningi.

Undir lok dagsins hófst keppni í U-20 og stendur allan morgundaginn einnig, meira um það hér á mbl.is í fyllingu tímans.

Úlfhildur leysti allar lyftur sínar af hendi af sannfæringu utan …
Úlfhildur leysti allar lyftur sínar af hendi af sannfæringu utan eina sem ekki fór upp, 97 kg. Þá var bara bætt í og 98 sett á stöngina með mun betri árangri. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert