Valgerður keppir loks í kvöld

Valgerður Guðsteinsdóttir hefur unnið fjóra atvinnumannabardaga.
Valgerður Guðsteinsdóttir hefur unnið fjóra atvinnumannabardaga. Ljósmynd/Bakland

Valgerður Guðsteinsdóttir, fyrsta og eina atvinnuhnefaleikakona Íslands, keppir sinn sjöunda atvinnubardaga í boxi þegar hún mætir Claire Sammut frá Möltu á boxkvöldi í Jönköping í Svíþjóð í kvöld.

Valgerður átti upphaflega að mæta hinni þaulreyndu Diönu Starkovu frá Úkraínu í kvöld en hún heltist úr lestinni.

Þá átti Valgerður að mæta Sammut í vor á Möltu en hætta þurfti við þann bardaga þegar eyjunni var lokað vegna kórónuveirufaraldursins. Sammut gat hins vegar hlaupið í skarðið fyrir Starkovu í kvöld.

Valgerður hefur unnið fjóra bardaga og tapað tveimur á ferli sínum sem atvinnuhnefaleikakona. Hún hefur ekki keppt síðan í mars 2019 þegar hún sigraði hina úkraínsku Sabinu Mishchenko með tæknilegu rothöggi í 5. lotu.

Erfiðlega hefur gengið að fá bardaga síðan þar sem faraldurinn og ýmislegt annað hefur sett strik í reikninginn.

Ekkert ætti þó að geta komið í veg fyrir að hún berjist gegn Sammut, sem hefur unnið fjóra bardaga og tapað sjö sem atvinnuhnefaleikakona, á „Night of the Champions“ boxkvöldinu í Jönköping í kvöld. Um sex lotu bardaga verður að ræða.

Áætlað er að bardagi Valgerðar hefjist klukkan 17.50 að íslenskum tíma og er hægt að kaupa aðgang að streymi frá bardaganum hér.

View this post on Instagram

A post shared by Mjölnir (@mjolnirmma)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert