„Það halda margir að ég hafi byrjað að æfa íþróttir strax eftir slysið en það var alls ekki þannig,“ sagði Arna Sigríður Albertsdóttir, hjólreiðakona ársins 2021 og ólympíufari, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Arna Sigríður, sem er 31 árs gömul, lenti í alvarlegu skíðaslysi 30. desember árið 2006 með þeim afleiðingum að hún brotnaði á þremur hryggjarliðum og hlaut mænuskaða með þeim afleiðingum að hún er lömuð fyrir neðan brjóstkassa.
Árið 2011 keypti hún sitt fyrsta handahjól og varð hún fyrst Íslendinga til þess að keppa á heimsmeistaramótinu í hjólreiðum í Notwil í Sviss árið 2015. Þá tók hún þátt í Ólympíumóti fatlaðra í Tókýó í sumar og varð um leið fyrsta íslenska konan til þess að keppa í handahjólreiðum á Ólympíumóti.
„Ég var á mjög erfiðum stað fyrst eftir slysið, og ég var í raun á erfiðum stað í mörg ár,“ sagði Arna Sigríður.
„Að hafa komist upp úr því og öðlast ákveðið sjálfstæði var því ákveðinn sigur fyrir mig. Ég hefði til dæmis aldrei trúað því á þeim tíma að ég myndi vera að deila minni sögu með öðrum í von um að veita þeim innblástur.
Ég held að íþróttirnar hafi breytt öllu fyrir mig því eftir að ég byrjaði að æfa aftur fór ég að sjá einhvern árangur í fyrsta sinn eftir slysið. Ég setti mér markmið, náði þeim og áttaði mig á því ég gat ennþá bætt mig í fullt af hlutum,“ sagði Arna meðal annars.
Viðtalið við Örnu Sigríði í heild má nálgast með því að smella hér.