Kvennalið Breiðabliks í knattspyrnu leikur lokaleiki sína í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í þessum mánuði. Liðið hefur ekki riðið feitum hesti í keppninni til þessa en Blikar eru með 1 stig eftir fjóra leiki og eiga ennþá eftir að skora mark.
Blikar fóru heldur betur vel af stað í keppninni og gáfu stórliði París SG hörkuleik á Kópavogsvelli hinn 6. október þar sem liðið var í raun óheppið að skora ekki. Þrátt fyrir hörkuleik Blika lauk leiknum með 2:0-sigri Frakklandsmeistaranna. Eftir fyrsta leikinn hefur frammistaða liðsins farið niður á við, svo við segjum það bara eins og það er.
Tímabilinu á Íslandi lauk hinn 1. október þegar Breiðablik lagði Þrótt úr Reykjavík að velli í úrslitaleik bikarkeppninnar á Laugardalsvelli. Síðan þá hafa Blikar spilað tvo keppnisleiki í mánuði í Meistaradeildinni, gegn liðum sem eru ennþá á miðju tímabili að undanskildu Kharkiv frá Úkraínu en leiktíðinni í Úkraínu lauk um miðjan nóvember.
Bakvörðinn má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.