Fagnaði fimm hundraðasta sigrinum

Samherjarnir fagna Marc-Andre Fleury í nótt.
Samherjarnir fagna Marc-Andre Fleury í nótt. AFP

Marc-Andre Fleury náði stórum áfanga í nótt þegar lið hans Chicago Blackhawks sótti sigur til Montreal með því að vinna Montreal Canadiens 2:0 í amerísku NHL-deildinni í íshokkí. 

Fleury hefur þá spilað í fimm hundruð sigurleikjum í NHL og er aðeins þriðji markvörðurinn í sögu deildarinnar sem nær þeim áfanga. 

Fleury hélt markinu hreinu í tímamótaleiknum og varði þrjátíu skot. Auk þess er hann frá Montreal og mikil tilviljun að áfanganum skuli hafa verið náð á æskuslóðunum. 

Martin Brodeur (691) and Patrick Roy (551) eru einu markverðirnir sem tekið hafa þátt í fleiri sigurleikjum í deildinni. Fleury vann 375 leiki með Pittsburgh Penguins, 117 með Vegas Golden Knights og átta með Chicago þar sem hann er á sínu fyrsta tímabili. 

Marc-Andre Fleury á vaktinni.
Marc-Andre Fleury á vaktinni. AFP

Sigurleikirnir hjá Fleury eru raunar mun fleiri því hér er miðað við sigurleiki í venjulegum leiktíma í deildakeppninni. Ekki eru taldir með sigurleikir eftir framlengingu eða vítakeppni þar sem sigurliðið fær tvö stig en ekki þrjú. Ekki eru heldur taldir með sigurleikir í úrslitakeppninni en Fleury hefur spilað í 90 slíkum og orðið NHL-meistari þrisvar sinnum. 

Við þetta má bæta að mikið álag getur verið á markvörðum í íshokkíleikjum. Þeir spila ekki alla leiki á tímabilinu og eru hvíldir þegar leikið er ört. Sem dæmi þá kemur af og til fyrir í deildinni að lið spili þrjá leiki á fjórum dögum. 

Fleury er 37 ára gamall og hefur verið lengi að en hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu árið 2003 af Pittsburgh Penguins. Hann varð ólymíumeistari með Kanada árið 2010. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert