Kastararnir Guðni Valur Guðnason og Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR urðu fyrir valinu sem frjálsíþróttakarl og frjálsíþróttakona ársins 2021 hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands.
Mikill fjöldi viðurkenninga var afhentur á rafrænni uppskeruhátíð sambandsins þar sem Guðni Valur fékk þrenn verðlaun. Hann vann stigahæsta afrek ársins í karlaflokki og var auk þess útnefndur kastari ársins. Erna Sóley var útnefnd kastari ársins í kvennaflokki.
Guðni kastaði kringlu 65,39 metra á árinu en Íslandsmet hans í greininni er 69,35 metrar. Þá kastaði hann kúlu 18,81 metra innanhúss.
Erna Sóley kastaði 16,95 metra í kúluvarpi innanhúss og 16,77 metra utanhúss á árinu en hvort tveggja er Íslandsmet.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR fékk Jónsbikarinn fyrir besta spretthlaupsafrek ársins en yfirlit yfir allar viðurkenningarnar auk skemmtilegs myndbands frá hátíðinni má sjá hér.