Lést rétt fyrir 34 ára afmælisdaginn

Demaryius Thomas með foreldrum sínum.
Demaryius Thomas með foreldrum sínum. Ljósmynd/BBC

Hinn 33 ára gamli Demaryius Thomas, fyrrum sóknarmaður í NFL deildinni í amerískum fótbolta, sem sigraði jafnframt ofurskálina (e. Super Bowl) með Broncos-liðinu árið 2016, lést í gær.

Ótímabært andlát Thomas má líklega rekja læknisfræðilegra vandkvæða, að sögn lögreglu.

„Við höfum enga ástæðu til að ætla annað,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Roswell í Georgíu í samtali við þarlenda fjölmiðla.

Thomas, sem hefur getið sér gott orð í amerískum fótbolta, spilaði lengst af með Broncos-liðinu og hafði með því betur gegn liðinu Carolina Panthers í ofurskálinni 50 (e. Super Bowl 50) í febrúar árið 2016, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

Síðar á ferlinum keppti hann með liðunum Houston Texas og New York Jets áður en hann lagðist í helgan stein síðastliðinn júní.

„Við erum niðurbrotin, algerlega niðurbrotin,“ segja liðsmenn Broncos í yfirlýsingu á Twitter.

„Auðmýkt, hlýja, góðvild og smitandi bros Demaryius mun ávallt verða í minnum höfð af þeim sem þekktu hann og elskuðu.“

Zach Azzanni, liðsþjálfari Broncos, sem þjálfaði Thomas eitt æfingatímabil, tjáði sig einnig um andlát hans á Twitter.

„Ég er svo leiður. Hjartað mitt er brotið. Ég er al­ger­lega orðlaus og mig verkj­ar. Ég græt bara. Azz­ani-fjöl­skyld­an mun ávallt elska þig DT. Ég er þakk­lát­ur fyr­ir að hafa fengið að kynn­ast þér,“ skrif­ar hann í færsl­unni.

Thomas lék með háskólaliðinu í Georgia Thech háskólanum áður en hann var valinn í Broncos-liðið í NFL deildinni árið 2010.

Thomas fæddist á jóladag, 25 desember, árið 1987 og lést því einungis 16 dögum fyrir 34 ára afmælisdaginn sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert