Íslandsmeistarar SA unnu ótrúlegan 4:3-sigur á útivelli gegn SR í Hertz-deild karla í íshokkí í kvöld.
SA var með mikla yfirburði í fyrstu lotunni og Derric Gulay, Hafþór Sigrúnarson og Gunnar Arason skoruðu allir og komu Íslandsmeisturunum í 3:0.
Axel Snær Orongan lagaði stöðuna fyrir SR um miðja aðra lotu og Sölvi Atlason breytti stöðunni 3:2 á 5. mínútu þriðju lotunnar. SR-ingar voru ekki hættir því Styrmir Maack jafnaði fimm mínútum fyrir leikslok.
SA átti hinsvegar lokaorðið því Hafþór Sigrúnarson tryggði meisturunum magnaðan sigur með sínu öðru marki í leiknum 40 sekúndum fyrir leikslok.
Með sigrinum fór SA upp fyrir SR í deildinni en liðin eru með 18 og 17 stig. Fjölnir rekur lestina með þrjú stig.