Guðlaug og Sigurður þríþrautarfólk ársins

Sigurður Örn Ragnarsson og Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Sigurður Örn Ragnarsson og Guðlaug Edda Hannesdóttir. Ljósmynd/Þríþrautarsamband Íslands

Guðlaug Edda Hannesdóttir og Sigurður Örn Ragnarsson, bæði úr Breiðabliki, hafa verið valin þríþrautarfólk ársins af Þríþrautarsambandi Íslands.

Guðlaug Edda, sem er 27 ára gömul, byrjaði árið mjög vel en hún keppti í Flórída og vann þar sprettþraut í Clermont og varð svo í 3. sæti í annarri sprettþraut í Sarasota viku síðar. Báðar keppnir voru sterkar með konum sem tóku þátt á Ólympíuleikunum í sumar.

Guðlaug keppti svo í maí í Yokohama í sterkustu mótaröð Alþjóðaþríþrautarsambandsins sem jafnframt var ein af síðustu keppnum ársins þar sem hægt var að ná í stig fyrir Ólympíuleikana og hún náði þar 35. sæti þrátt fyrir að vera farin að glíma við meiðsli. Næsta keppni var svo í Portúgal í maí en þar lenti Guðlaug Edda í óhappi á hjólinu og handarbrotnaði.

Hún fór svo í stóra aðgerð á mjöðm í sumar og var frá keppni út árið en er búin að ná sér að mestu og mun hefja keppni aftur í mars á næsta ári með stefnu á Ólympíuleikana 2024. Þetta er fimmta árið í röð sem Guðlaug Edda er valin þríþrautarkona ársins.

Sigurður Örn Ragnarsson, sem er þrítugur, vann allar bikarkeppnir sumarsins á Íslandi með yfirburðum og varð jafnframt þrefaldur Íslandsmeistari í þríþraut. Sigurður bætti m.a. besta tíma Íslendings í ólympískri þríþraut og keppti einnig með góðum árangri í einstökum greinum innan þríþrautarinnar. Þetta er fjórða árið í röð sem Sigurður er valinn þríþrautarkarl ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert