Andri og Anna skylmingafólk ársins

Andri Nikolaysson Mateev er skylmingamaður ársins í fimmta sinn.
Andri Nikolaysson Mateev er skylmingamaður ársins í fimmta sinn. Ljósmynd/Skylmingasamband Íslands

Andri Nikolaysson Mateev og Anna Edda Gunnarsdóttir hafa verið valin skylmingafólk ársins 2021 af Skylmingasambandi Íslands.

Andri Nikolaysson Mateev er skylmingamaður ársins í fimmta sinn. Hann varð RIG meistari á árinu. Síðastliðinn september hóf Andri vinnu í ólympíuhópi Christian Bauer í Frakklandi. Christian hefur unnið fimm ólympíugull sem þjálfari og er það afar mikill heiður að fá að vinna með honum.

Andri var hársbreidd frá því að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í sumar og endaði hann þar í fimmta sæti af 24 sterkum keppinautum í Evrópu þar sem aðeins eitt aukasæti er gefið. Hans aðalmarkmið er að ná þátttökurétti á leikunum og mun hann leggja hart að sér til þess að keppa í París árið 2024, að því er kemur fram í tilkynningu frá Skylmingasambandinu.

Þetta er svo í fyrsta skiptið sem Anna Edda Gunnarsdóttir Smith er útnefnd skylmingakona ársins.

Anna Edda Gunnarsdóttir Smith.
Anna Edda Gunnarsdóttir Smith. Ljósmynd/Skylmingasamband Íslands

Hún fékk silfurverðlaun í keppni kvenna með höggsverði á Reykjavíkurleikunum í byrjun árs 2021. Þá hafnaði Anna Edda í þriðja sæti á Norðurlandameistaramótinu í kvennaflokki á árinu, sem var haldið í Finnlandi.

„Hún er án efa ein efnilegasta skylmingakona Íslands og hefur mikla möguleika á að ná langt í framtíðinni,“ sagði í tilkynningu Skylmingasambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert