„Næturlífið hefur aldrei heillað mig,“ sagði Úlfar Jón Andrésson, leikmaður Fjölnis og landsliðsmaður í íshokkí, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Úlfar, sem er 33 ára gamall, byrjaði að æfa íshokkí þegar hann var sex ára gamall og er í dag á meðal reyndustu landsliðsmanna Íslands frá upphafi.
Hann hefur aldrei smakkað áfengi á ævi sinni, ólíkt mörgum, og hann vill freka eyða frítíma sínum á fjöllum og um firnindi.
„Ég fór stundum með vinum mínum í bæinn þegar ég var yngri en útivistin hefur alltaf heillað mig mun meira en næturlífið,“ sagði Úlfar Jón.
„Ég hef verið mjög heppinn með vini í gegnum tíðina sem hafa einhvernvegin alltaf viljað eyða tíma með mér á fjöllum, frekar en úti á lífinu, og ég er mjög ríkur varðandi það,“ sagði Úlfar Jón.
Viðtalið við Úlfar Jón í heild sinni má nálgast með því að smella hér.