Alls stefna tólf íslenskir íþróttamenn á þátttöku á Vetrarólympíuleikunum sem fram fara í Peking í Kína og hefjast 4. febrúar næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu ÍSÍ.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, Katla Björg Dagbjartsdóttir, María Finnbogadóttir og Sturla Snær Snorrason stefna á að keppa á leikunum í alpagreinum.
Albert Jónsson, Dagur Benediktsson, Isak Stiansson Pedersen, Kristrún Guðnadóttir og Snorri Einarsson vonast til að keppa í skíðagöngu og Baldur Vilhelmsson, Benedikt Friðbjörnsson og
Marinó Kristjánsson stefna á að keppa á snjóbrettum á leikunum.
Ísland átti alls fimm keppendur á síðustu Ólympíuleikum í PeyongChang í Suður-Kóreu árið 2018. Tvo í alpagreinum og þrjá í skíðagöngu.
„Miðað við núverandi stöðu á heimslistum má búast við því að fjöldi keppenda með keppnisrétt verði svipaður, auk þess sem vonir eru bundnar við keppendur í snjóbrettum,“ segir meðal annars í frétt ÍSÍ.
„Kvótar eru á keppnisréttum og eru þeir misjafnir eftir greinum. Erfiðara er að vinna sér inn keppnisrétt nú en áður vegna breytinga á lágmörkum.
Einnig hefur verið erfiðara að ferðast og sækja mót erlendis sökum heimsfaraldurs,“ segir ennfremur á heimasíðu ÍSÍ.