„Fyrsta landsliðsferðin mín til Bosníu var mjög eftirminnileg,“ sagði Úlfar Jón Andrésson, leikmaður Fjölnis og landsliðsmaður í íshokkí, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Úlfar, sem er 33 ára, byrjaði að æfa íshokkí þegar hann var sex ára gamall en hann hefur verið fastamaður í landsliðum Íslands frá árinu 2003.
Hann fór í sínu fyrstu landsliðsferð sama ár til Bosníu en ummerki frá Bosníustríðinu, sem lauk árið 1995, voru mjög sjáanleg í landinu á þessum tíma.
„Þegar að við keyrðum inn í bæinn var mikið af skotsárum á öllum húsunum í kringum okkur og við vorum áminntir aftur og aftur að við þyrftum að sýna mikla virðingu þarna,“ sagði Úlfar.
„Við unnum til gullverðlauna í þessum landsleikjaglugga en við töpuðum úrslitaleiknum gegn Ísrael. Ísrael notaðist hins vegar við ólöglegan leikmann og okkur var því úrskurðaður sigur í leiknum.
Ísraelsmennirnir hótuðu að drepa okkur en þeir gistu á sama hóteli og við þannig að það voru vopnaðir verðir á öllum hæðum hótelsins,“ sagði Úlfar meðal annars.
Viðtalið við Úlfar Jón í heild sinni má nálgast með því að smella hér.