Tennisleikarinn Rafael Nadal hefur greinst með kórónuveiruna við heimkomu til Spánar eftir að hann keppti á Mubadala-mótinu í Abú Dabí um síðustu helgi.
Nadal var nýsnúinn aftur á tennisvöllinn eftir að hafa glímt við meiðsli undanfarna mánuði.
Hann greindi sjálfur frá þessu á twitteraðgangi sínum þar sem hann kvaðst hafa upplifað smá óþægindi vegna veirunnar en að hann vonist til að jafna sig jafnt og þétt.
Nadal sagði hins vegar að þetta þýddi að hann þyrfti að halda dagskrá sinni galopinni og því gæti hann misst af einu stærsta tennismóti næsta árs, Opna ástralska í Melbourne, sem hefst þann 17. janúar næstkomandi.