Kínverska tenniskonan Peng Shuai hafnar því að hafa sakað nokkurn um nauðgun í kjölfar þess að hún birti færslu á samfélagsmiðlinum Weibo í byrjun nóvember og skrifaði þar að Zhang Gaoli, fyrrverandi varaforseti Kína, hafi þvingað hana til samræðis.
Í kjölfar birtingar færslunnar virtist Peng hverfa sporlaust og var færslan ásamt eldri færslum hennar á miðilinn, sem er sambærilegur Facebook, fjarlægð.
Tveimur vikum síðar, fyrir um mánuði síðan, birtist hún óvænt á tennismóti í Peking þar sem ljósmyndir og myndskeið náðust af henni, en samtalið á myndskeiðinu virtist þó sviðsett og hefur Samband tenniskvenna, WTA, enn áhyggjur af því að kínverska ríkið sé að ritskoða það sem Peng segir og gerir.
Peng segir að mikils misskilnings hafi gætt vegna færslu sinnar.
„Ég hef aldrei sagt eða skrifað að nokkur maður hafi beitt mig kynferðislegu ofbeldi. Sá punktur þarf að vera fyllilega á hreinu,“ sagði hún í samtali við Lianhe Zaobao, miðil frá Singapúr sem er þekktur fyrir að vera hliðhollur kínverska ríkinu.
Í viðtalinu, sem var tekið á íþróttaviðburði í Sjanghæ, virtist Peng hissa á þeirri tegund spurninga sem var beint til hennar og kvaðst ekki vera undir neinu eftirliti.
„Af hverju ætti einhver að vera að fylgjast með mér? Ég hef alltaf verið mjög frjáls,“ sagði hún.
Í yfirlýsingu frá WTA sagði að sambandið væri ánægt með að Peng hafi sést á opinberum vettvangi en að það slægi ekki á eða tæki fyrir áhyggjur sem það hafi um velferð hennar og möguleika á að tjá sig án ritskoðunar eða þvingunar.
„Við erum áfram staðráðin í því að kalla eftir sanngjarnri og gagnsærri rannsókn í tengslum við ásökun hennar um kynferðisofbeldi, sem er það mál sem vakti upphaflega áhyggjur okkar,“ sagði í yfirlýsingunni.