Ýtti dómara en var ekki rekinn af velli

Bill Belichick, þjálfari New England Patriots, var ekki sáttur við …
Bill Belichick, þjálfari New England Patriots, var ekki sáttur við dómgæsluna í tapi liðsins gegn Indianapolis Colts. AFP

Bill Belichick, þjálfari New England Patriots í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, skilur ekkert í því hvernig T.Y. Hilton, leikmaður Indianapolis Colts, hafi sloppið við að vera rekinn af velli eftir að hann ýtti einum dómara leiks liðanna á laugardag.

Á blaðamannafundi í dag var Belichick spurður út í það þegar Kyle Dugger hjá New England og Michael Pittman Jr. voru reknir af velli eftir að hafa slegist í leiknum, sem endaði með 27:17-sigri Indianapolis.

Slagsmál tvímenninganna urðu fljótt að hópslagsmálum og sást Hilton ýta dómaranum Tra Blake niður í jörðina í þann mund sem slagsmálin voru að leysast upp.

„Þegar allt kemur til alls fengu báðir leikmenn brottvísun. Ég myndi segja að ég skilji það. Hvort ég sé sammála þeirri ákvörðun er allt önnur umræða.

En ég skil ekki hvers vegna T.Y. Hilton var ekki rekinn af velli fyrir að snerta dómara. Hvort sem það var viljandi eða óviljandi skiptir það engu máli hvað sóknina varðar.

Þegar litið er til reglna þá fæ ég bara ekki skilið hvernig T.Y. Hilton var ekki rekinn af velli. Ég meina, hann ýtti dómara. Það var nokkuð ljóst. En það var ekkert dæmt á það. Þetta er hreinn og beinn brottrekstur fyrir mér,“ sagði Belichick.

„Það er hægt að skoða þessar sóknir og þær eru skoðaðar. Þú þyrftir að tala við dómarana um þetta, þeir tóku þessa ákvörðun,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert