Fá ekki að fara á Ólympíuleikana

Steven Stamkos er leiður yfir því að komast aldrei á …
Steven Stamkos er leiður yfir því að komast aldrei á Ólympíuleika. AFP

Forráðamenn norðuramerísku íshokkídeildarinnar, NHL, hafa tilkynnt að leikmenn hennar fái ekki að taka þátt í vetrarólympíuleikunum sem hefjast í Peking í Kína 4. febrúar.

Ástæðan er sú að mörgum leikjum deildarinnar í vetur hefur verið frestað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Það er ekki lengur raunhæft að leikmenn okkar fari á leikana,“ sagði Gary Bettman, framkvæmdastjóri NHL, en fimmtíu leikjum á yfirstandandi tímabili hefur verið frestað.

Þar með verða leikmenn NHL, sem margir eru bestu íshokkímenn heims, ekki með á vetrarólympíuleikum í annað skiptið í röð. NHL leyfði leikmönnum ekki heldur að fara til Pyeongchang í Suður-Kóreu árið 2018 og þá var ástæðan sú að leikið var um miðja nótt að bandarískum tíma og ekki réttlætanlegt að mati deildarinnar að gera hlé á henni.

NHL og leikmannasamtökin höfðu áður ákveðið að senda sína leikmenn á vetrarólympíuleikana 2022 og 2026, með fyrirvara um að kórónuveiran hefði ekki áhrif á framgang deildarinnar.

Þetta þýðir að margir leikmenn missa af öðrum leikum sínum í röð. Einn þeirra er Steven Stamkos, fyrirliði Tampa Bay og landsliðsmaður Kanada. „Af ýmsum ástæðum hefur ólympíufarmiðinn ekki komist í mínar hendur. Það er hundfúlt og nú fæ ég líklega aldrei tækifæri til að keppa á ólympíuleikum,“ sagði Stamkos við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert