„Það eru oftast atvinnumenn í íþróttinni sem hafa hlotið þessa nafnbót þannig að ég er fyrst og fremst stoltur og ánægður með þessa viðurkenningu,“ sagði Ragnar Ingi Axelsson, leikmaður Hamars í Hveragerði, í samtali við Morgunblaðið í höfuðstöðvum ÍSÍ í Laugardal.
Ragnar var útnefndur blakmaður ársins í hófi Blaksambands Íslands sem haldið var í höfuðstöðvum ÍSÍ við Engjaveg í Reykjavík á þriðjudaginn en hann varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari með Hamri á síðustu leiktíð.
Íslandsmeistaratitillinn var jafnframt sá fyrsti í sögu Hamars í flokkaíþrótt en liðið hefur verið algjörlega óstöðvandi á árinu og tapaði ekki leik í öllum keppnum.
„Ég er líka fyrsti frelsinginn til þess að fá þessi verðlaun sem gerir mig ennþá stoltari. Það er oft þannig að þeir sem spila í stöðu frelsingja þurfa að eiga stórkostlega leiki til þess að eiga möguleika á því að vera valdir menn leiksins þannig að leikstaðan sem slík fellur oft í skuggann af smössurunum, uppspilurunum og þessum helstu sóknarmönnum.“
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag