Aaron Rodgers, leikstjórnandi Green Bay Packers í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, setti félagsmet í gær þegar þrjár sendingar hans enduðu með snertimörkum í 24:22-sigri liðsins gegn Cleveland Browns.
Rodgers, sem er 38 ára, hefur nú gefið 444 sendingar sem hafa leitt til snertimarks fyrir Green Bay og er þannig kominn upp fyrir goðsögnina Brett Favre sem náði 442 slíkum sendingum á ferli sínum hjá liðinu.
Metið setti Rodgers á sínu 17. tímabili hjá Green Bay í sínum 211. leik.
Liðinu hefur gengið vel á tímabilinu þar sem það hefur unnið 12 leiki og aðeins tapað þremur og er því í afar góðri stöðu þegar kemur að möguleikanum á að vera í efsta sæti NFC-hluta NFL-deildarinnar fyrir umspilið á næsta ári.
Langflestar snertimarkssendingar í sögu NFL-deildarinnar á hins vegar Tom Brady fyrir New England Patriots og núverandi lið sitt, Tampa Bay Buccaneers, eða alls 617 sendingar.