Kýldi eigin liðsfélaga á bekknum

Jonathan Allen kýldi liðsfélaga sinn í nótt.
Jonathan Allen kýldi liðsfélaga sinn í nótt. AFP

Jonathan Allen kýldi samherja sinn Daron Payne hjá Washington Football Team á varamannabekknum þegar liðið steinlá, 14:56, fyrir Dallas Cowboys í NFL-deildinni í amerískum fótbolta í nótt.

Þegar staðan var 7:28 í öðrum leikhluta rifust þeir Allen og Payne heiftarlega sem leiddi til þess að Payne potaði í höfuðið á Allen, sem bandaði hendi Paynes frá og kýldi hann svo í andlitið.

„Tilfinningarnar eru miklar og ýmislegt gerist. Ég held að það þurfi engan eldflaugavísindamann til þess að sjá af hverju þetta gerðist ef þú skoðar hvernig leikurinn fór,“ sagði Allen á blaðamannafundi eftir leik.

Aðrir varnarmenn Washington skárust í leikinn og stöðvuðu slagsmálin. Payne sagðist sjálfur einungis hafa verið á röngum stað á röngum tíma.

„Þið eigið bræður er það ekki? Þið rífist við þá er það ekki?“ spurði Payne blaðamenn. „Þetta er allt í góðu,“ bætti hann við.

Hvorugum leikmanni verður refsað fyrir athæfið að sögn Rons Rivera, þjálfara Washington.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert