Stefán Arnarson hefur verið ráðinn íþróttastjóri ÍR.
Stefán hefur undanfarin ár starfað sem íþróttastjóri KR samhliða þjálfun kvennaliðs Fram í handknattleik.
Hann mun halda áfram þjálfun Fram, sem er á toppi úrvalsdeildar kvenna, samhliða starfi sínu sem íþróttastjóri ÍR en lætur af störfum sem íþróttastjóri KR.
„Stefán mun hefja störf 6. janúar næstkomandi og bjóðum við nýjan íþróttastjóra hjartanlega velkominn til starfa í þetta spennandi, fjölbreytta og skemmtilega starf fyrir okkur ÍR-inga.
Stefán er með BA-próf í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands og hefur starfað innan íþróttahreyfingarinnar í yfir tvo áratugi,“ segir í tilkynningu frá ÍR.