Gylfi Þór líklega á förum frá Everton

Michael Van Gerwen þurfti að draga sig úr keppni í …
Michael Van Gerwen þurfti að draga sig úr keppni í gær. AFP

Hollendingurinn Michael van Gerwen þurfti að draga sig úr keppni á heimsmeistaramótinu í pílukasti sem fram fer í Alexandra Palace í Lundúnum á Englandi eftir að hafa greinst með kórónuveiruna.

Van Gerwen átti að mæta Chris Dobey í 3. umferð keppninnar í gær en viðureigninni var aflýst eftir að Hollendingurinn, sem er í 3. sæti heimslistans, greindist með veiruna.

Hollendingurinn var ósáttur við að þurfa að hætta keppni en hann ætlaði sér stóra hluti í keppninni í ár en hann hefur þrívegis orðið heimsmeistari á ferlinum, síðast árið 2020.

„Auðvitað skiptir heilsan öllu máli og hún á alltaf að vera í forgangi,“ sagði van Gerwen í samtali við AD Sportwereld.

„Ég átti ekki von á því að þurfa að hætta keppni. Ég hef dvalið á hótelinu allan tímann og ég fór ekki einu sinni niður í morgunmat til þess að reyna að forðast öll smit. Þetta er hrein og klár martröð enda er ég búinn að taka hraðpróf á hverjum einasta degi síðan ég kom til Englands.

Það hefði mátt standa betur að sóttvörnum í kringum mótið og prófa alla áhorfendur sem mæta í Alexandra Palace en það var ekki gert. Þeim hefur ekki tekist að hemja veiruna og þetta er bara ein stór kórónuveirubomba núna. 

Ég þarf að súpa seyðið af því, sem er mjög pirrandi, enda hef ég farið mjög varlega og fylgt öllum sóttvarnareglum í aðdraganda mótsins,“ bætti van Gerwen við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert