Einar Vilhjálmsson í Heiðurshöll ÍSÍ

Einar Vilhjálmsson í ræðustóli með mynd af ungum sjálfum sér …
Einar Vilhjálmsson í ræðustóli með mynd af ungum sjálfum sér í bakgrunni. Ljósmynd/Mummi Lú

Spjótkastarinn Einar Vilhjálmsson var í kvöld tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ en að vanda var tilkynnt um nýjan meðlim í höllinni um leið og Samtök íþróttafréttamanna heiðruðu íþróttamann ársins en sú athöfn stendur nú yfir í beinni útsendingu RÚV.

Einar var í fremstu röð spjótkastara í heiminum á árunum 1983 til 1992. Hann varð sjötti á Ólympíuleikunum 1984, sigraði á heimsleikunum 1988 og vann tug móta á mótaröðum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Einar var kjörinn íþróttamaður ársins 1983, 1985 og 1988. Hann er 23. íþróttamaðurinn sem tekinn er í Heiðurshöll ÍSÍ en faðir hans, Vilhjálmur Einarsson, var sá fyrsti sem tekinn var inn árið 2012.

ÍSÍ sendi frá sér tilkynningu vegna útnefningar Einars síðar í kvöld og hún hljóðar þannig:

Einar Vilhjálmsson frjálsíþróttamaður var í kvöld tuttugasti og þriðji einstaklingurinn sem er útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti útnefninguna einróma á fundi sínum 2. desember sl. Afhending viðurkenningarinnar fór fram í beinni útsendingu RÚV þegar úrslit úr kjöri Samtaka íþróttafréttamanna um Íþróttamann ársins 2021 voru tilkynnt.

Einar er fæddur 1. júní árið 1960. Íslandsmet hans í spjótkasti er 86,80 m, sett 30. ágúst 1992.

Hann setti bandarískt háskólameistaramótsmet í spjótkasti árið 1983 í Houston í Texas, með kasti upp á 86,80 metra, og bandarískt háskólamet með kasti upp á 92,42 á Teras Relays árið 1984.

Einar setti Norðurlandamet, 82,78 m, á Landsmóti UMFÍ á Húsavík 1987 og og Evrópumeistaramótsmet, 85,48 m, árið 1990 í Split í þáverandi Júgóslavíu. Einar vann landskeppni Norðurlandanna og Bandaríkjanna árið 1983 og lagði þar heimsmethafann Tom Petranoff í annað sinn.

Hann var valinn í úrvalslið Evrópu til keppni í heimsbikarkeppni árið 1985 og leiddi fyrstu Grand Prix stigakeppni Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF) sama ár frá fyrsta móti í Kaliforníu í maí og allt til ágústmánaðar og eru þá allar frjálsíþróttagreinar meðtaldar. 

Einar hlaut gullverðlaun á Heimsleikunum í Helsinki árið 1988. Hann vann til 10 gullverðlauna á Grand Prix stórmótaröðum IAAF og fjölda silfur og bronsverðlauna á árinum 1985, 1987, 1989.

Keppnisferill Einars spannar um 220 mót í um 22 löndum og hafnaði hann á verðlaunapalli á um 200 þeirra. Einar komst fyrst á heimslistann yfir bestu spjótkastara heims árið 1983 og síðast árið 1992. Hann varð sjötti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og kom Íslandi á blað í frjálsíþróttum með eitt stig.

Á keppnisferli Einars var spjótum breytt þrisvar sinnum. Einar var einn þriggja spjótkastara í heiminum sem náði að komast á heimslistann með öllum spjótunum.

Einar var kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna þrisvar sinnum, árin 1983, 1985 og 1988.

Þess má geta að faðir Einars, Vilhjálmur Einarsson, var útnefndur fyrstur allra í Heiðurshöll ÍSÍ, 28. janúar 2012 á 100 ára afmæli ÍSÍ.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Einar Vilhjálmsson í Heiðurshöll ÍSÍ.

Einar Vilhjálmsson flutti ávarp eftir að hann var tekinn inn …
Einar Vilhjálmsson flutti ávarp eftir að hann var tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ í kvöld. Ljósmynd/Mummi Lú
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert